„Við byrjuðum að undirbúa þessa fjármögnun sumarið 2022 eða um það leyti sem fallið var frá skráningu félagsins á markað vegna markaðsaðstæðna. Í kjölfarið fórum við af stað í þetta fjármögnunarferli og það er mjög ánægjulegt að svona góð niðurstaða hafi fengist í það,“ segir Björk Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Carbon Recycling International (CRI) um nýlokna 30 milljón dala (4 milljarða króna) fjárfestingarlotu sem tilkynnt var um fyrr í vikunni.
Equinor Ventures leiðir hóp nýrra fjárfesta sem bætast nú í hlutahafahóp CRI en aðrir nýir fjárfestar eru Gildi lífeyrissjóður, Sjóvá og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja. Equinor Ventures er fjárfestingaarmur Equinor og sérhæfir sig í að fjárfesta í og styðja við vaxandi nýsköpunarfyrirtæki á orkumarkaði. Equinor er alþjóðlegt orkufyrirtæki með höfuðstöðvar í Noregi.
„Equinor er mjög framsækið félag á orkumarkaði og þeim sem við störfum innan en metanól er að hasla sér völl sem einn af orkugjöfum framtíðarinnar. Félagið mun njóta góðs af reynslu og þekkingu Equinor Ventures sem mun eiga fulltrúa í stjórn CRI. Þá hefur Equinor Ventures mikla reynslu af því að vinna með félögum sem eru í alþjóðlegum vexti. Það er því styrkileiki fyrir CRI að njóta góðs af þekkingu þeirra í þeirri vegferð og vexti sem framundan er.“
Tæknilausn CRI er leiðandi á heimsvísu en hún gerir viðskiptavinum kleift að framleiða metanól á umhverfisvænan hátt úr koltvísýringi og vetni, sem síðan er hægt að nýta sem grænan orkugjafa eða í efnavörur. Tæknilausnin var þróuð og prófuð á Íslandi og var í kjölfarið innleidd í stærstu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum, sem staðsett er í Kína. Á meðal annarra stórra hluthafa í fyrirtækinu eru Geely, Methanex og Eyrir Invest.
„Það er búið að þróa tæknina innan okkar raða í fjölda ára, sannreyna hana og selja á erlenda markaði. Félagið var stofnað árið 2006 af frumkvöðlum sem voru langt á undan sinni samtíð en markaðurinn hefur þróast hratt tiltölulega nýlega og nú hefur myndast mikil eftirspurn eftir þessari lausn á alþjóðamarkaði. Nú þegar markaðurinn er kominn á þennan stað, tæknilausnin tilbúin og hefur verið nýtt í fullvaxta verksmiðju er félagið í einstakri stöðu. Þess vegna er þessi fjármögnun svo þýðingarmikil. Við erum búin að þróa sannreynda tæknilausn sem gefur okkur samkeppnisforskot sem eina félagið á heimsvísu á okkar markaði sem er komið á þennan stað. Við höfum því einstakt tækifæri til að hasla okkur enn frekar völl á þessum markaði.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.