Nú um helgina fór Blöndulón á yfirfall öðru sinni í sumar. Lónið hefur aldrei áður farið á yfirfall í júlí, að því er segir í tilkynningu Landsvirkjunar.

„Hlýr og vætusamur vetur og ágæt snjóstaða á hálendinu hefur nú fyllt það í tvígang í sumar. Reikna má með að yfirfallsrennsli verði fram í ágúst að minnsta kosti.“

Oftast á yfirfall í ágúst

Landsvirkjun segir að venjulega fari Blöndulón á yfirfall í byrjun ágúst þegar jökulbráðnun er komin í gang.

„Afar sjaldgæft er að lónið fari á yfirfall að vorlagi. Það gerðist í maí sl., en hafði þá ekki gerst frá vorunum 2003 og 2004. Bæði 2003 og 2004 fór lónið ekki aftur á yfirfall fyrr en í byrjun ágúst, en nú gerist það nokkrum vikum fyrr,“ segir í tilkynningunni.

„Vatnsbúskapur Landsvirkjunar er með miklum ágætum á öllum vinnslusvæðum. Í vor blasti við að staða Blöndulóns og Hálslóns væru með besta móti í sögulegu samhengi. Þá er staða Þórisvatns betri en hún hefur verið undanfarin ár og töluvert yfir meðaltali. Allar líkur eru því á góðum miðlunarforða næsta haust, ef tíðin verður áfram hagfelld.“

Vatnshæð Blöndulóns. Mynd tekin af vef Landsvirkjunar 14. júlí 2025.