Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur kynnt áform um sameiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og Skipulagsstofnunar. Hjá HMS starfa um 160 manns og hjá Skipulagsstofnun starfa um 25 manns.

Óvissa um endanleg fjárhagsáhrif

Í Samráðsgáttinni, þar sem áformin eru boðuð, segir að með því að með sameiningunni verði til öflugri stofnun sem hefur getu til að vinna að þeim kerfisbreytingum í húsnæðismálum sem boðaðar eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Með sameiningu næst fram einföldun stjórnsýslu skipulags- og mannvirkjamála. Ferill frá skipulagi til fullbúins mannvirkis verður hjá einni stofnun gagnvart sveitarfélögum, fasteignaeigendum og öðrum hagsmunaaðilum. Með sameiningu verður aukin áhersla á hagkvæmni í landnýtingu, sjálfbærni og nýtingu auðlinda.“

Með sameinunginni er horft til þess að lækka kostnað stofnananna „til lengri tíma litið“. Ekki er minnst á hagræðingu í starfsmannahaldi.

„Óvissa [er] um hver endanleg fjárhagsáhrif verða en sparnaður mun koma strax fram varðandi húsnæði. Önnur hagræðing gæti átt sér stað til lengri tíma litið,“ segir í skjali um mat á áhrifum hinnar áformuðu lagasetningar.

Stofnanir verði með færri en 50 starfsmenn

Í tilkynningunni segir að eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar sé að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir.

„Stofnanir ríkisins eru um 160 talsins með starfstöðvar um allt land. Helstu rök fyrir sameiningum eru þau að stærri einingar séu betur til þess fallnar að sinna kjarnaþjónustu og veita góða þjónustu. Slíkar einingar séu einnig betri rekstrareiningar. Rúmur helmingur stofnana er með færri en 50 stöðugildi. Fjórðungur stofnana er með færri en 20 stöðugildi.“

Áformuð sameining HMS og Skipulagsstofnunar er ekki meðal tillagna hagræðingarhópsins sem forsætisráðherra skipaði í upphafi árs og skilaði af sér tillögum í byrjun mars sl.

Í skýrslu hópsins var hins vegar minnst á Skipulagsstofnun á lista yfir stofnanir með færri en 50 starfsmenn en lagt var til að ráðuneytin myndu vinna að fækkun stofnana þannig að stöðugildi hverrar stofnunar verði ekki undir 50.

SA áður lagt þetta til

Þess má geta að sameining HMS og Skipulagsstofnunar var meðal tillagna Samtaka atvinnulífsins (SA) að lausnum að bættum húsnæðismarkaði til fjárlaganefndar í mars 2022.

„Sameining HMS og Skipulagsstofnunar væri í takti við þróun málaflokksins nálægum löndum. Þar hafa öll málefni byggingar- og mannvirkjagerðar, frá skipulagi til uppbyggingar, verið sett undir sama hatt innan stjórnsýslunnar til að efla málaflokkinn,“ segir í tillögum SA.

„Í Svíþjóð falla húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál undir eina stofnun, Boverket. Í Danmörku hafa öll þessi málefni verið sameinuð undir nýja stofnun, Bolig- og planstyrelsen.“