Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í dag aðgerðaráætlunina Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Þar kemur fram að Samfylkingin horfi til þess að hækka árleg fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála um 1-1,5% af vergri landsframleiðslu (VLF).
Árið 2022 jafngildir það hlutfall um 38-57 milljörðum króna. Flokkurinn sér fyrir sér að auka fjárframlög jafnt og þétt á átta árum eða yfir tvö kjörtímabil.
Tryggja fjármögnunina á „tekjuhlið ríkissjóðs“
Samfylkingin vill tryggja fjármögnunina á „tekjuhlið ríkissjóðs“. Það felst m.a. í endurskoðun á tekjuskattskerfinu „með það markmið að færast nær velferðarsamfélögum Norðurlanda“. Jafnframt segist flokkurinn vilja draga úr misræmi skattlagningar fjármagns- og launatekna.
Þá eigi að tryggja að arður af sameiginlegum náttúruauðlindum „nýtist í þágu samfélagsins alls“, sem gera verður ráð fyrir að feli í sér aukna gjaldtöku í sjávarútvegi.
Samfylkingin hyggst útfæra umræddar aðgerðir nánar eftir samtal við almenning um land allt í fyrirhugaðri málefnavinnu. Næstu málaflokkar sem flokkurinn mun taka fyrir með sambærilegum hætti eru atvinna og samgöngur og svo húsnæðis- og kjaramál.
Fimm þjóðarmarkmið
Í aðgerðaráætlun Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og öldrunarmálum eru lögð fram fimm þjóðarmarkmið.
Fyrsta markmiðið snýr að því að fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi. Í plagginu segir að aðeins um 50% Íslendinga sé með fastan heimilislækni en hlutfallið sé um 95% í Noregi. Rannsóknir sýni að innlagnirá sjúkrahús eru 30% algengari hjá þeim sem hafa ekki fastan heimilislækni.
Einnig er hoft til þess að bæta heilbrigðisþjónustu úti á landi, m.a. með styrkingu sjúkraflutninga og niðurgreiðslu ferðakostnaðar „til að taka á áhrifum af samþjöppun í heilbrigðiskerfinu á undanförnum áratugum“. Þá eigi að fjölga þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar og staðsetja eina sérútbúna sjúkra- og björgunarþyrlu utan höfuðborgarsvæðis.
Eitt markmiðið snýr að því að auka tíma menntaðs heilbrigðisstarfsfólks með sjúklingum, m.a. með því að fjölga starfsfólki í stoðstéttum heilbrigðiskerfisins.
Aðgerðaráætlunin er sögð afrakstur af málefnastarfi undanfarinna sex mánaða sem miðast við nýja nálgun sem lögð var upp á flokksstjórnarfundi í Hafnarfirði í mars síðastliðnum.