Hugh Short, forstjóri Pt. Capital, stærsta einstaka hluthafa Nova, segir að fjárfestingarfélagið frá Alaska hyggist endurfjárfesta stórum hluta söluandvirðis frá útboðum Nova á Íslandi. Pt. Capital, sem á einnig um þriðjungshlut í Keahótelum, skoðar nú nýja fjárfestingarmöguleika hér á landi.
Pt. Arctic Fund, sjóður í stýringu hjá Pt. Capital, eignaðist nær allt hlutfé í Nova í fyrra við kaup á helmingshlut Novator. Í lokuðu útboði í vor og frumútboði Nova í júní seldi Pt. Capital mest allan eignarhlut sinn í Nova. Fjárfestingarfélagið er þó enn stærsti einstaki hluthafi Nova með um 11% hlut.
Hugh sagði í viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum að Pt. Capital hyggist ekki selja frekari hlut í Nova á næstunni. Stjórnarseta í Nova hjálpi Pt. Capital m.a. að mynda sambönd við íslenska fjárfesta.
Spurður út í fyrirhugaða fjárfestingu hér á landi, þá sagði Hugh að erfitt sé að gefa upp frekari upplýsingar um hana á þessum tímapunkti sökum smæðar markaðarins.
„Það sem ég get sagt er að við erum með fjármagn hérna og ætlum að koma með aukið fé inn. Við viljum víkka út sambandið okkar við fjármálageirann.“
Viðtalið við Hugh Short má finna í heild sinni hér. Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 20. október 2022.