Evrópska rafskútuleigan Bolt hefur starfsemi á Íslandi í dag. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að félagið vilji einblína á öryggi og umbreyta borgum til að henta fólki frekar en bílum.
Bolt verður fyrst um sinn með 800 rafskútur í Reykjavík og þurfa ökumenn að vera 16 ára eða eldri til að geta nýtt sér þjónustuna.
Ökumenn í Reykjavík greiða fimmtán krónur á mínútu til að leigja Bolt rafskútu, en athygli vekur að Bolt rukkar ekkert startgjald. Þannig kostar tíu mínútna ferð með Bolt rafskútu 150 krónur.
Að auki ætlar Bolt að bjóða upp á dag, viku- og mánaðarpassa. Dagpassi með 60 mínútna akstri kostar 539 krónur, vikupassi með 150 mínútna akstri kostar 1.499 krónur og mánaðarpassi með 300 mínútna akstri kostar 2.999 krónur.
„Við teljum að borgir ættu að forgangsraða fólki fram yfir bíla. Deilisamgöngur bjóða upp á verulegan félagslegan, efnahagslegan og umhverfisvænan ávinning með því að draga úr vægi einkabílsins,” segir Martin Tansøy, rekstrarstjóri hjá Bolt.
Í rafskútunum er innstillt kerfi sem mælir viðbragðstíma ökumannsins og er hugsað til þess að koma í veg fyrir ölvunarakstur.
Þá notar Bolt gervigreind til að meta hvort ökumenn leggi rafskútunni nægilega vel að loknum akstri.
150 milljónir viðskiptavina
Bolt appið er með yfir 150 milljónir viðskiptavina í yfir 50 löndum og yfir 600 borgum í Evrópu og Afríku. Fyrirtækið býður upp á rafskútu- og rafhjólaleigu í meira en 250 borgum í 25 löndum.
Þar fyrir utan hefur Bolt gert sig gildandi á leigubílamarkaði og matarsendingum, auk þess sem deilibílaleigan Bolt Driver hefur vaxið fiskur um hrygg.