Reykjavíkurborg leitar nú að nýju húsnæði fyrir „almenningsmarkað“ í miðborg Reykjavíkur, þ.e. fyrir Kolaportið en Tollhúsið sem notað hefur verið í þessum tilgangi verður nýtt undir starfsemi Listaháskólans.
Borgarráð samþykkti í gær að undirbúin yrði markaðskönnun til að finna nýjan stað fyrir Kolaportið. Í tilkynningu á vef borgarinnar segir tilgangur markaðskönnunar sé að laða fram hugmyndir og upplýsingar frá áhugasömum aðilum um mögulega staðsetningu fyrir nýjan almenningsmarkað í miðborginni.
Markmiðið sé að hefja viðræður við þá aðila sem kunna að eiga hentugt húsnæði og/eða svara auglýsingu. Gert er ráð fyrir að auglýst verði á næstu vikum.
Könnunin mun meðal annars byggja á greiningu hönnunarstofunnar m / studio_ á þörfum og mögulegri staðsetningu og var greiningin kynnt í borgarráði í gær. Gert er ráð fyrir að tillögur starfshóps um almenningsmarkað í miðborginni að næstu skrefum liggi fyrir í haust.
Horfa til erlendra fyrirmynda
Í greiningu m / studio_ kemur fram kemur að Kolaportið sé í dag um 2.250 fermetrar að heildargólfleti og talað er um að 1.200 fermetra markaður væri í minni kantinum.
Í greiningunni er ekki talað um einhverja eina ákveðna stærð varðandi heildar rýmisþörf almenningsmarkaðar en fremur horft til uppgefinna viðmiða.
„Litið er til ýmissa fyrirmynda erlendis og teflt fram hugmyndum um nokkrar staðsetningar í Reykjavík sem höfundar telja að gæti verið spennandi að skoða frekar og þær greindar út frá framangreindum viðmiðum.“
Verið í Tollhúsinu í 30 ár
Flóamarkaður í miðborg Reykjavíkur undir heitinu Kolaportið var fyrst opnaður laugardaginn 8. apríl 1989 og var hann staðsettur í bílageymslum Reykjavíkurborgar undir Seðlabanka Íslands við Arnarhól og tók nafn sitt af þeirri staðsetningu.
Fimm árum síðar, 15. maí 1994, flutti Kolaportið sig um set á jarðhæð Tollhússins við Tryggvagötu og hefur verið þar síðan. Það var Þróunarfélag Reykjavíkur sem leigði húsið af Fjármálaráðuneytinu og endurleigði aftur til félags um Kolaportið.