Borgarráð Reykja­víkur­borgar samþykkti í gær að rifta sam­komu­lagi við Reykja­vík De­velop­ment ehf., dóttur­félag Arcusar ehf., fjár­festingarfélags Þor­valdar H. Gissurar­sonar, frá árinu 2016 um kaup á 89 bílastæðum undir Geirs­götu á Austur­bakka 2 í Reykja­vík.

Bílastæða­sjóður Reykja­víkur gekk frá samningi við félagið í lok október 2016 um kaup á 89 ótil­greindum bílastæðum í bíla­kjallaranum við Geirs­götu.

Kaup­verðið fyrir stæðin var 500,8 milljónir króna en upp­reiknað kaup­verð m.v. septem­ber­mánuð í ár er sett á 734,5 milljónir króna. Sam­svarar það um 8,2 milljónum fyrir hvert stæði.

Sam­kvæmt greinar­gerð fjár­mála- og áhættustýringa­sviðs Reykja­víkur­borgar var borgin aðeins búin að efna kaup­samninginn að hluta til fyrir hönd Bílastæða­sjóðs. Borgin var búin að greiða 441 milljón en ekki var búið að ganga frá af­sali né af­hendingu.

Upp­reiknuð fjár­hæð sem Reykja­vík De­velop­ment endur­greiðir borginni vegna riftunar er 643 milljónir króna.

Bílastæðahús Hörpu er með 545 stæðum.
Bílastæðahús Hörpu er með 545 stæðum.

Eigna­skrif­stofa borgarinnar óskaði eftir óháðu verðmati í maí 2023 á stæðunum 89 við Austur­bakka 2. Sam­kvæmt verðmatinu er áætlað sölu­verð stæðanna 540 milljónir eða rúm­lega 6 milljónir fyrir hvert stæði.

Í júní á þessu ári aug­lýsti Reykja­víkur­borg til sölu 125 bílastæði í bílastæða­kjallara Hörpu.

Borgarráð heimilaði í byrjun mánaðar að gengið yrði frá kaup­samningi við hæst­bjóðanda sem var Reykja­vík De­velop­ment.

Félagið á því að minnsta kosti 214 bílastæði við Hörpuna um þessar mundir.

„Við söluna var viðhaft tveggja þrepa kerfi og bárust fimm til­boð á þrepi eitt en tvö á þrepi tvö. Kaldalón hf. bauð 750.000.000 krónur og Reykja­vík De­velop­ment ehf. 752.500.000 krónur.

Eftir yfir­ferð til­boða er talið að til­boð Reykja­vík De­velop­ment ehf. sé hagstæðara hvað varðar fyrir­vara í til­boði, greiðslu­til­högun og fjár­hæð. Málið fer til endan­legrar af­greiðslu borgar­stjórnar,” sagði í til­kynningu frá borginni í síðustu viku.