Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær að rifta samkomulagi við Reykjavík Development ehf., dótturfélag Arcusar ehf., fjárfestingarfélags Þorvaldar H. Gissurarsonar, frá árinu 2016 um kaup á 89 bílastæðum undir Geirsgötu á Austurbakka 2 í Reykjavík.
Bílastæðasjóður Reykjavíkur gekk frá samningi við félagið í lok október 2016 um kaup á 89 ótilgreindum bílastæðum í bílakjallaranum við Geirsgötu.
Kaupverðið fyrir stæðin var 500,8 milljónir króna en uppreiknað kaupverð m.v. septembermánuð í ár er sett á 734,5 milljónir króna. Samsvarar það um 8,2 milljónum fyrir hvert stæði.
Samkvæmt greinargerð fjármála- og áhættustýringasviðs Reykjavíkurborgar var borgin aðeins búin að efna kaupsamninginn að hluta til fyrir hönd Bílastæðasjóðs. Borgin var búin að greiða 441 milljón en ekki var búið að ganga frá afsali né afhendingu.
Uppreiknuð fjárhæð sem Reykjavík Development endurgreiðir borginni vegna riftunar er 643 milljónir króna.
Eignaskrifstofa borgarinnar óskaði eftir óháðu verðmati í maí 2023 á stæðunum 89 við Austurbakka 2. Samkvæmt verðmatinu er áætlað söluverð stæðanna 540 milljónir eða rúmlega 6 milljónir fyrir hvert stæði.
Í júní á þessu ári auglýsti Reykjavíkurborg til sölu 125 bílastæði í bílastæðakjallara Hörpu.
Borgarráð heimilaði í byrjun mánaðar að gengið yrði frá kaupsamningi við hæstbjóðanda sem var Reykjavík Development.
Félagið á því að minnsta kosti 214 bílastæði við Hörpuna um þessar mundir.
„Við söluna var viðhaft tveggja þrepa kerfi og bárust fimm tilboð á þrepi eitt en tvö á þrepi tvö. Kaldalón hf. bauð 750.000.000 krónur og Reykjavík Development ehf. 752.500.000 krónur.
Eftir yfirferð tilboða er talið að tilboð Reykjavík Development ehf. sé hagstæðara hvað varðar fyrirvara í tilboði, greiðslutilhögun og fjárhæð. Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar,” sagði í tilkynningu frá borginni í síðustu viku.