Úrvalsvísitalan stóð nánast í stað í 4,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Um 2,6 milljarða velta var með hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni; Arion banka, Íslandsbanka og Kviku banka.

Hlutabréfaverð Arion banka, sem sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun eftir lokun Kauphallarinnar í gær, hækkaði um 1,5% í yfir 800 milljóna veltu og stendur nú í 173 krónum á hlut. Gengi Arion er nú 11,5% hærra en í upphafi árs.

Arion upplýsti í gær að samkvæmt drögum að uppgjöri fyrir annan ársfjórðung hagnaðist bankinn um 10 milljarða króna á tímabilinu apríl-júní, sem samsvarar 19% arðsemi eigin fjár.

Gengi Kviku banka, sem á í samrunaviðræðum við Arion, hækkaði í fyrstu viðskiptum í dag en féll aðeins þegar leið á daginn. Alls lækkaði gengi Kviku um 0,6% í 760 milljóna veltu í dag og stendur nú í 17,8 krónum á hlut.

Gengi hlutabréfa Íslandsbanka hækkaði einnig um 0,8% í eins milljarðs króna veltu í dag og stendur nú í 122 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Íslandsbanka og hefur ekki verið hærra síðan í byrjun apríl, þegar bankinn greiddi út 6,46 krónur í arð. Gengi Íslandsbanka er nú 14,5% hærra en útboðsgengið í útboði ríkisins í maí.

Hlutabréfaverð Sýnar hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,4%, eftir að hafa lækkað aðeins í upphafi vikunnar. Gengi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins sendur nú í 30,6 krónum á hlut.

Alvotech lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,2% í yfir hálfs milljarðs króna veltu. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 1.055 krónum á hlut.