Breska samkeppniseftirlitið hefur skipað Meta, móðurfélagi Facebook, að selja dótturfyrirtækið sitt Giphy, sem netrisinn eignaðist árið 2020 fyrir 400 milljónir dala eða sem nemur 57 milljörðum króna á gengi dagsins.

Í yfirlýsingu segist Meta hafa orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun eftirlitsins en unir niðurstöðunni sem kveður á um að stórfyrirtækið þurfi að vinda ofan af viðskiptunum. „Við munum vinna náið með Breska samkeppniseftirlitinu varðandi sölu Giphy.“

Sjá einnig: Eftirlitið vill að Facebook selji Giphy

Eftirlitið segir að rannsókn sín hafi leitt í ljós að Facebook gæti með kaupunum komið í veg fyrir að aðrir samfélagsmiðlar noti GIF-hreyfimyndasniðin. Jafnframt gætu viðskiptin dregið úr samkeppni og nýsköpun á stafræna auglýsingamarkaðnum á Bretlandi.

Breska samkeppniseftirlitið tilkynnti niðurstöður rannsóknarinnar eftir fasa II í nóvember 2021 og skipaði þá Meta að selja Giphy. Netrisinn áfrýjaði ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Nefndin staðfesti 5 af 6 forsendur niðurstöðunnar í júlí síðastliðnum. Eftir nánari skoðun tilkynnti eftirlitið um endanlega ákvörðun í dag.

Þegar frumniðurstöður eftirlitsins voru birtar í fyrra benti Meta á að Giphy væri ekki með neina starfsmenn, tekjur eða eignir í Bretlandi og taldi því að lögsvið eftirlitsins næði ekki til samrunans.