Leikbreytir er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að þjónusta fyrirtæki sem vilja nýta sér stafrænar lausnir sem í boði eru til að auka skilvirkni í rekstri. Meðal lausna sem fyrirtækið veitir eru netspjall, snjallmenni, sjálfvirknivæðing ýmissa endurtekinna verkefna, vefverslanir og farsímaveski. Síðastnefnda lausnin hefur einmitt vakið mikla athygli innan verslunargeirans undanfarin misseri, eða allt frá því að farsímaveskislausn, sem gerir fólki kleift að geyma gjafakort og inneignarnótur sem gilda í verslunum S4S í farsímaveski, var kynnt til leiks í október.
„Við höfum þróað og sett upp fjölda vefverslana, auk þess að búa til lausnir sem veita viðskiptavinum fyrirtækja aukna þjónustu í gegnum sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu á vefnum. Aftur á móti hafa áherslurnar á þessu ári, þá sérstaklega seinni hluta árs, snúist í kringum gjafabréfalausnir," segir Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri og stofnandi Leikbreytis. „Lausnin snýst um það að gjafabréf og inneignarnótur eru gerð aðgengileg í gegnum farsímaveskislausnir, á borð við Wallet í iPhone símum. Við þróuðum þessa lausn í samstarfi við S4S og í kjölfarið hefur hún vakið mikla athygli meðal kaupmanna á Íslandi."
Yngvi segir fyrirspurnum hafa rignt inn frá fyrirtækjum í verslunargeiranum frá því að gjafabréfalausn S4S var sett í loftið. „Gjafabréf og inneignarnótur hafa hingað til bara verið á pappírsformi og þá er hætta á að þær endi ofan í skúffu og gleymist, eða þær hreinlega týnist. Margir kaupmenn vilja því vita hvernig S4S fór að því að leysa þetta vandamál og hvort við getum sett upp sömu lausn fyrir þeirra verslanir. Það var að vissu leyti hugsjón stjórnenda S4S sem ýtti okkur út í að skoða hvort það væri ekki hægt að búa til stafræna lausn í kringum gjafabréf og inneignarnótur," segir Yngvi og bætir við:
„Korthafi getur séð uppi í horninu á stafræna gjafakortinu hvað það er mikið eftir af gjafabréfinu og staðan uppfærist um leið og gengið hefur verið frá greiðslu. Auk þess virkar lausnin þannig að þegar fólk er nálægt verslun á vegum S4S sendir lausnin sjálfkrafa tilkynningu í síma gjafakortshafa þar sem hann er minntur á gjafakortið."
Yngvi segir að umrædd lausn geti einnig nýst vildarklúbbum, fyrirtækjum í veitingageiranum og fyrir aðgangsmiða á viðburði. Gjafabréfalausnin hafi jafnframt vakið athygli út fyrir landsteinana. „Við vinnum mikið í samstarfi við þýskt fyrirtæki sem veitir svipaða þjónustu og Leikbreytir. Þýska félagið hefur kynnt gjafabréfalausnina fyrir viðskiptavinum sínum og hefur lausnin vakið mikla athygli meðal þeirra."
Færri endurtekningar skapi hagræði
Yngvi stofnaði Leikbreyti árið 2019 og var markmiðið, eins og nafn fyrirtækisins gefur til kynna, að „breyta leiknum" fyrir viðskiptavini með notkun stafrænna lausna. „Mig langaði að setja á fót fyrirtæki sem væri með sjálfvirkni og gervigreind í brennidepli og upp frá því varð Leikbreytir til. Ég sé mikil tækifæri í því fyrir fyrirtæki að leggja aukna áherslu á sjálfvirknivæðingu í sínum rekstri og í störfum mínum legg ég mikið upp úr viðskiptamiðaðri hugbúnaðarþróun. Allt sem við gerum hefur það meginmarkmið að bæta þjónustu fyrirtækja á sama tíma og stuðlað er að hagræði í rekstri."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .