Controlant hefur tilkynnt um breytingar á framkvæmdastjórn sem munu styðja við áframhaldandi þróun og vegferð félagsins. Í tilkynningu segir að breytingarnar muni styrkja enn frekar stöðu Controlant á sviði rauntímavöktunarlausna fyrir alþjóðlega lyfjageirann.
Þrír stjórnendur taka að sér ný hlutverk hjá Controlant en það eru Erlingur Brynjúlfsson sem verður framkvæmdastjóri stefnumótunar, Carsten Lützhøft sem verður framkvæmdastjóri vörusviðs, og Wade Munsie sem verður framkvæmdastjóri tæknisviðs.
„Staða okkar til þess að mæta flóknum og síbreytilegum kröfum viðskiptavina okkar verður enn sterkari með þessum breytingum á framkvæmdastjórn. Þrír reynslumiklir leiðtogar taka við nýjum hlutverkum sem snúa að þremur lykilsviðum félagsins: tækni, vörum og stefnumótun. Ég býð Erling, Carsten, og Wade velkomna í ný hlutverk,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant.
Erlingur hefur verið bæði framkvæmdastjóri vörusviðs og framkvæmdastjóri tæknisviðs fram að þessu. Í nýju hlutverki sem framkvæmdastjóri stefnumótunar mun Erlingur styðja við mótun og framkvæmd stefnu félagsins, og rannsaka nýja tækni og tækifæri fyrir Controlant til þess að umbreyta aðfangakeðju lyfja.
Carsten tók þá við stöðu forstöðumanns viðskiptaþróunar hjá Controlant í byrjun árs en hann hefur víðtæka reynslu í bæði lyfja- og tæknigeira og hefur sinnt ýmsum stjórnendastöðum hjá Novo Nordisk, þar sem hann mótaði og leiddi nýtt svið fyrir starfrænar lausnir og vöruþróun fyrir framleiðslu- og aðfangakeðju danska lyfjarisans.
Wade hefur reynslu úr bæði lyfja- og flutningageira. Hann var áður Global Data Officer hjá breska lyfjarisanum, GSK, og Chief Data Officer hjá breska póstinum, Royal Mail. Wade hlaut alþjóðlegu verðlaunin Global Data and Analytics Leader of the Year Award, bæði 2021 og 2022.