Um áramótin voru Sex álnir ehf. og Landsbankinn stærstu hluthafar Eyris Invest með 14,2% hlut hvort. Þá á félagið 12 Fet hef. 10,6% í Eyri Invest en það félag keypti hlut Arion banka í Eyri Invest.

Árni Oddur stofnaði bæði Sex álnir og 12 Fet á síðasta ári en aðrir fjárfestar í félögunum eru meðal annars hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, oftast kennd við Fagkaup eða Johan Rönning, útgerðarmaðurinn Jakob Valgeir, fjárfestingafélag Kristjáns Loftssonar, sem og félag í aðaleigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu.

Tvö félög í eigu Þórðar Magnússonar, Th. Magnússon ehf. og Þórður Magnússon, eiga samtals 14,1% í Eyri Invest.

Eins og Viðskiptblaðið hefur greint frá hagnaðist Eyrir Invest um ríflega 174 milljónir evra á síðasta ári eða sem nemur um 26 milljörðum króna. Er þetta mikill viðsnúningur því árið 2023 nam tap félagsins 11,7 milljörðum króna og árið 2022 var tapið 79 milljarðar. Þetta kemur fram í ársreikningi Eyris Invest, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Skuldlaust félag

Í skýrslu stjórnar segir að eftir samruna JBT og Marel og útgáfu nýrra hluta hafi Eyrir Invest átt 9,8% eignarhlut í JBT Marel.

„Salan á Marel virkjaði uppgreiðsluákvæði í lánasamningi félagsins við JNE Partners og The Baupost Group,“ segir í skýrslunni. „Lánveitendurnir höfðu val um að fá lánið greitt til baka með reiðufé eða hlutabréfum að nafnverði 63.263.684 í Marel. Þeir kusu að fá greitt með hlutabréfum í Marel og fengu þar með endurgjald fyrir þau í sömu hlutföllum og Eyrir fékk fyrir undirliggjandi hlutabréf, þ.e. 35%/65% reiðufé og hlutabréf í sameinuðu félagi.“

Stór tíðindi urðu í janúar síðastliðnum því í skýrslu stjórnar segir að þá hafi félagið greitt upp allar vaxtaberandi skuldir og því sé félagið skuldlaust við lánastofnanir á undirritunardegi ársreiknings 2024.

Stærsti einstaki hluthafinn í JBT Marel

Að loknu uppgjöri við JNE Partners, The Baupost Group og aðra lánveitendur eins og Arion banka, Landsbankann og Íslandsbanka, átti Eyrir Invest 6,5% í JBT Marel. Eyrir Invest er því stærsti einstaki hluthafinn í JBT Marel. BlackRock og Vanguard eiga reyndar aðeins meira en eignarhlutirnir eru dreifðir í marga sjóði félaganna.

Auk eignarhlutsins í JBT Marel á Eyrir Invest 46,5% hlut í Eyri Sprotum slhf. og 23,4% hlut í Eyri Vexti slhf. Þá á Eyrir Invest 100% hlut í dótturfélögunum Eyri Ventures ehf. og Grænu metanóli ehf. Loks á félagið 100% hlut í Eyri Venture Management sem annast rekstur áðurnefndra sjóða og eignarhaldsfélaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.