Breytingar hafa verið gerðar á fram­kvæmda­stjórn ferðaþjónustu­fyrir­tækisins Arctic Adventures þar sem tveir nýir fram­kvæmda­stjórar hafa tekið sæti.

Gunnar Haf­steins­son hefur verið ráðinn fram­kvæmda­stjóri upp­lýsingatæknisviðs. Hann hefur víðtæka reynslu úr upp­lýsingatækni og stafrænni vöruþróun en hann starfaði áður hjá Noona Iceland, Símanum, Five De­grees og Lands­bankanum.

Gunnar er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykja­vík og B.Sc.-gráðu í tölvunar­fræði frá sama skóla.

Lina Zygele, sem gegnir starfi markaðs­stjóra Arctic Adventures, tekur jafn­framt sæti í fram­kvæmda­stjórn félagsins. Hún hóf störf hjá Arctic Adventures árið 2019 sem sér­fræðingur í stafrænni markaðs­setningu. Lina er með B.Sc.-gráðu í við­skipta­fræði og M.Sc.-gráðu í markaðs­fræði og sam­skiptum frá Háskólanum í Vilnius í Lit­háen.

Ás­geir Baldurs for­stjóri Arctic Adventures segir breytingarnar lið í áfram­haldandi upp­byggingu félagsins.

„Ég er afar ánægður með að fá þetta öfluga fólk inn í framkvæmdastjórn félagsins þar sem þau munu spila stórt hlutverk. Undanfarin misseri höfum við byggt upp og eflt enn frekar innviði Arctic Adventures, fjárfest í vöruþróun og aukið vöruframboð okkar. Fjárfesting í aukinni tæknigetu og stafrænni markaðssetningu er lykillinn að áframhaldandi vexti Arctic Adventures sem leiðandi ferðaþjónustufyrirtækis á Íslandi.”