Samkeppniseftirlitið hefur tekið ákvörðun um að beita Brim dagsektum að upphæð 3,5 milljónir króna á dag. Dagsektirnar byrja að reiknast eftir að fjórtán dagar eru liðnir frá ákvörðun um hana, í samræmi við 39. gr. samkeppnislaga.

Dagsektirnar tengjast yfirstandandi athugun á stjórnunar- og eignatengslum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Gagnaöflun í málinu hófst með bréfi til allmargra sjávarútvegsfyrirtækja þann 5. apríl síðastliðinn og samkvæmt samkeppniseftirlitinu brugðust langflest fyrirtæki vel við þeirri beiðni og veittu viðeigandi upplýsingar.

Brim er hins vegar eina fyrirtækið sem hefur ekki enn veitt þær upplýsingar sem óskað var eftir og hefur það, að sögn Samkeppniseftirlitsins, tafið rannsókn málsins.