Basta Ventures, dótturfélag hugbúnaðarfyrirtækisins Gangverks, tryggði sér 200 milljóna króna fjármögnun í lok síðasta árs.

Basta hóf rekstur á árinu 2022 og var stofnað í kringum hugbúnað utan um stafræn uppboð. Meðal verkefna uppboðshússins er samstarf við Joopiter, stafrænt uppboðshús þúsundþjalasmiðsins Pharrell Williams. Þá eru Bill Ackman og Ray Dalio að nota kerfi Basta til að safna stórum fjárhæðum til góðgerðamála, svo eitthvað sé nefnt.

Að fjármögnuninni komu öflugir fjárfestar, svo sem Sotheby‘s, elsta og virtasta uppboðshús heims, sem Gangverk hefur unnið fyrir síðan árið 2015, fjárfestingarfélagið Omega ehf., í eigu fjárfestanna Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, ásamt nokkrum einstökum fjárfestum.

„Eftir starfslok hjá Sotheby’s gekk ég með hugmynd í maganum að nýju uppboðskerfi. Mig langaði til að búa til uppboðsól og auka aðgengi að uppboðsforminu þar sem hver sem er gæti búið til uppboð og deilt því með sínum fylgjendum innan níutíu sekúndna,“ segir Óli Björn Stephensen, framkvæmdastjóri Basta, en hann starfaði sem tækni- og þróunarstjóri hjá Sotheby’s á árunum 2015-2019.

„Rúmlega ári eftir að ég hætti hjá Sotheby's, hóf ég störf sem ráðgjafi hjá Pharrell Williams. Þetta er maður með ótrúlegt viðskiptavit og þekkingu á sérhönnuðum flíkum. Hann veit sögurnar á bak við hverja og eina flík.

Þegar ég sagði honum frá Basta spurði hann strax hvenær þetta gæti verið tilbúið. Sex mánuðum síðar, í október 2022, var fyrsta uppboðið á Joopiter komið í loftið.“

Meðal verkefna Basta er samstarf við Joopiter, stafrænt uppboðshús þúsundþjalasmiðsins Pharrell Williams.
© EPA-EFE (EPA-EFE)

Til að byrja með seldi Pharrell eigin varning á uppboðshúsinu og seinna meir varning frá vinum sínum og samstarfsaðilum, þar á meðal Nigo, G-Dragon, og Murakami.

„Basta hefur vaxið hratt og nú þegar hafa yfir fjögur hundruð áhrifavaldar skráð sig. Þetta er sjálfsafgreiðsla þar sem hver sem er getur farið inn á vefsíðuna og búið til sitt eigið uppboð og birt á samfélagsmiðlum,“ bætir Óli við.