Í mars síðastliðnum lauk Brunnur Ventures og Landsbréf fjármögnun á 8,3 milljarða vísisjóði (e. venture capital fund) sem ber nafnið Brunnur vaxtarsjóður II. Sjóðurinn er fjármagnaður af tíu lífeyrissjóðum og Landsbankanum. Frá því í mars hefur Brunnur II fjárfest í fjórum sprotafyrirtækjum, tveimur á hugmyndastigi og tveimur á klakstigi.Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Í sumar fjárfesti Brunnur Ventures í Overtune sem er nýstárlegt tónlistarforrit hannað fyrir snjallsíma sem gerir notendum kleift að skapa tónlist án þess að hafa tónlistarlegan bakgrunn og einfaldar ferlið við að dreifa tónlistinni á öðrum samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram Reels. Einn af stofnendum félagsins og framkvæmdastjóri þess er Sigurður Ásgeir Árnason. Fjármögnun kom meðal annars frá Brunni og nokkrum þekktum fjárfestum úr afþreyingariðnaðinum, þar á meðal stofnanda Guitar Hero. Nú þróar félagið svokallaða fyrstu útgáfu eða (e. minimum viable product) sem er væntanleg á íslenskan markað bráðlega,“ segir í tilkynningunni.
Þá hafi Brunnur fjárfest í Kosmi sem sé vettvangur á netinu þar sem vinir geti hist og upplifað ýmiss konar afþreyingu sameiginlega á einfaldan hátt. „Haukur Rosinkranz, ungur frumkvöðull og áður forritari hjá Takumi, hannaði sýndarfélagsmiðstöð (e. Virtual hang-out platform) og setti lausnina í loftið í upphafi árs 2020. Skyndilega bættist við mikill fjöldi notenda og í kjölfarið fer Haukur í gegnum sprotahraðal hjá Mozilla og fær síðan reyndan kanadískan frumkvöðul með sér í lið,“ segir í tilkynningunni.
Brunnur tók jafnframt, ásamt nokkrum erlendum sjóðum, þátt í fjármögnun The One Company, sem þróar og rekur stefnumótasmáforritið Smitten Dating. Davíð Örn Símonarson og Ásgeir Vísir Jóhannsson eru stofnendur og hafa þeir margra ára reynslu af þróun samfélagsmiðla. „Flest stefnumótaforrit snúast einfaldlega um að koma á stefnumóti en Smitten Dating leggur auk þess áherslu á fjölbreytt og skemmtileg samskipti,“ segir í tilkynningunni. Smitten hóf, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, fyrir nokkru markaðssókn á sinn fyrsta erlenda markað, Danmörku .
Loks fjárfesti Brunnur nýverið í Standby Deposits, sem stofnað var af Agli Almari Ágústssyni en hann hefur búið og starfað í Bandaríkjunum. Hann kom auga á tækifæri á húsnæðismarkaði þar. Fyrirtækið þróar nú fjártækniafurð fyrir Bandaríkjamarkað sem nýtir bankaábyrgðir til að koma í staðinn fyrir öryggistryggingar (e. Security deposit) við leigu á húsnæði. Lausnin er þróuð í samstarfi við fasteignafélag á Miami, Flórída.
Brunnur Ventures var stofnað af Árna Blöndal og Sigurði Arnljótssyni, en hjá félaginu starfa einnig nýir fjárfestingastjórar, þau Kjartan Örn Ólafsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.
„Brunnur hefur þá stefnu að leiða fjárfestingar á klak- og vísistigi (e. Seed Stage, Early Stage) og hefur náð góðum árangri í að fá til liðs fjárfesta á seinni stigum. Aðkoma erlendra sérhæfðra sjóða á viðkomandi sérsviði skiptir máli upp á að fá tengingar, þekkingu og fjármagn fyrir félagið. Þegar lagt var upp með Brunn vaxtarsjóð árið 2015 höfðum við metnað fyrir því að fjárfesta snemma í fyrirtækjum og laða svo sérhæfða erlenda vísisjóði að fyrirtækjunum í eignasafninu á seinni stigum. Þessar áætlanir hafa gengið eftir hjá fjölda fyrirtækja í eignasafninu okkar, t.d. fengu Avo, Grid, DTE, Oculis og EpiEndo erlent fjármagn á árunum 2020-21", er haft eftir Árna Blöndal, fjárfestingastjóra og öðrum stofnenda Brunns Ventures í tilkynningu.
Sú breyting hafi átt sér stað með tilkomu Brunns II að nú sé einnig fjárfest á svokölluðu hugmyndastigi (e. pre-seed stage), en Brunnur telji að fjármagn til félaga á þessu stigi hafi vantað hér á landi.
„Áhersla okkar er að fyrirtækin sem við fjárfestum í búi yfir skalanlegu viðskiptamódeli, sé gjaldeyrisskapandi, geti náð samkeppnisforskoti í formi þekkingar, viðskiptaleyndarmáls eða einkaleyfis og sé með teymi frumkvöðla sem eru framúrskarandi á sínu sviði. Nýsköpunarstarf er lykillinn að fjölbreytilegu hagkerfi og tryggir bæði verðmætasköpun og lífsgæði framtíðarinnar", er haft eftir Árna að lokum.