Brynja leigufélag keypti fyrr í þessum mánuði tíu íbúðir á Steindórsreitnum svokallaða, sem markast af Framnesvegi, Sólvallagötu og Hringbraut. Kaupverð íbúðanna var 689 milljónir króna fyrir samtals 628,4 fermetra, eða um 1.096 þúsund krónur á fermetra.
Leigufélagið Brynja er sjálfseignarstofnun sem hefur þann tilgang að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja og leitast við að leigja íbúðir gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er.
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið nái því markmiði mjög vel þar sem það er lítið skuldsett. Brynja geti því boðið upp á leiguverð sem jafnvel einstaklingar á örorkubótum þola.
„Við höfum það markmið í okkar rekstri að fjölga íbúðum og að tryggja félagslega blöndun. Þetta eru náttúrulega mjög vandaðar íbúðir og falla þær vel að þessu markmiði okkar,“ segir Guðbrandur um íbúðirnar á Steindórsreitnum.
Hann segir félagið hafa keypt mikið af eignum undanfarin misseri og nefnir til að mynda 14 nýjar íbúðir sem Brynja tók við í haust í Hamrahverfinu í Hafnarfirði. Þá hafði félagið einnig sett sér það markmið árið 2022 að bæta við 320 eignum á fimm ára tímabili.
„Við höfum líka unnið mikið í stefnumótun á þessu ári og erum að skoða að bæta við nýrri vídd inn í starfsemi okkar sem væru íbúðir fyrir öryrkja sem eru 60 ára og eldri. Þar að auki eru biðlistarnir líka orðnir svo langir. Í lok október voru til dæmis 471 aðili á biðlista og 75% af þeim voru á höfuðborgarsvæðinu.“