Brynjólfur Bjarnason hefur ákveðið að stíga til hliðar sem stjórnarformaður Arion banka og mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu á aðalfundi bankans sem fer fram í mars.
Frá þessu er greint í kauphallartilkynningu Arion banka um afkomu fjórða ársfjórðungs sem send var eftir lokun markaða.
Brynjólfur hefur verið stjórnarformaður síðastliðin fimm ár en hann var fyrst kjörinn í stjórn árið 2014.
„Eftir að hafa setið í áratug í stjórn Arion banka og þar af gegnt stjórnarformennsku síðastliðin fimm ár, tel ég rétt að láta gott heita. Það hefur verið afar ánægjulegt að taka þátt í vegferð bankans sem hefur tekið miklum breytingum á þessum tíu árum,“ segir Brynjólfur í tilkynningu.
Hann segir að Arion hafi til að mynda haft forystu um innleiðingu stafrænnar fjármálaþjónustu hér á landi auk þess sem þjónustuframboð hafi verið aukið verulega. Hann þakkar hluthöfum bankans fyrir traustið og starfsfólki, stjórn og viðskiptavinum árangursríkt samstarf.
„Rekstur bankans hefur gengið vel og efnahagur hans er traustur. Í ljósi þessara styrkleika er ég sannfærður um að Arion sé afar vel í stakk búinn að takast á við áskoranir framtíðarinnar.“
„Brynjólfur Bjarnason, sem var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi í nóvember 2014 og kjörinn formaður stjórnar í mars 2019, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Það eru því viss tímamót hjá okkur og vil ég fyrir hönd starfsfólks Arion þakka Brynjólfi fyrir afar ánægjulegt og árangursríkt samstarf,” segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Sitjandi stjórn Arion banka er skipuð eftirfarandi sex einstaklingum:
- Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður
- Paul Horner, varaformaður
- Liv Fiksdahl
- Gunnar Sturluson
- Steinunn Kristín Þórðardóttir
- Kristín Pétursdóttir
Ákveðið hefur verið ákveðið að lengja frest til að tilkynna tilnefningarnefnd bankans um framboð í stjórn til 21. febrúar, vilji frambjóðendur fá umsögn nefndarinnar. Almennur framboðsfrestur er 3. mars, fimm dögum fyrir aðalfund.