Breska fjarskiptafélagið BT og Bandaríski fjölmiðlarisinn Discovery eru í viðræðum um að sameina íþróttastöðvarnar BT Sport og Eurosport UK í eina íþróttastöð sem myndi að öllum líkindum fá nýtt nafn og vörumerki. Samkvæmt The Athletic vonast félögin til þess að samningar náist á fyrsta ársfjórðungi og að stöðin verði tilbúin fyrir lok árs, háð samþykki samkeppnisyfirvalda.

Alþjóðlega íþróttastreymisveitan DAZN var í viðræðum við BT um kaup á BT Sport á 600 milljónir Sterlingspunda, en samningar náðust ekki. Samkvæmt heimildum The Athletic ákvað BT í síðustu viku að fara í sameiningu við Eurosport frekar en að selja BT Sport alfarið til DAZN.

Sameinaða íþróttastöðin mun bjóða upp á enska boltann, Meistaradeildina og Evrópudeildina í gegnum BT Sport. Auk þess mun stöðin meðal annars vera með Ólympíuleikana og Opna meistaramótið í Tennis í gegnum Eurosport UK. Núverandi áskrifendur að BT Sports og Eurosport munu fá aðgang að öllu efni sem stöðvarnar bjóða upp á, án viðbótargreiðslu, samkvæmt grein Times .

Discovery ætlar einnig að sameinast WarnerMedia í Bandaríkjunum, að því er kemur fram í frétt hjá Times. Þá munu áskrifendur fá aðgang að stöðum eins og HBO og CNN. Jafnframt vilja heimildir The Athletic meina að Discovery vilji kaupa BT Sport síðar meir, á sama hátt og DAZN ætlaði sér í fyrstu.