Fjárfestirinn Warren Buffet, sem er orðinn 94 ára gamall, greindi frá því í bréfi til fjárfesta í gær að hann ætlar að gefa hluta af A-bréfum sínum í Berkshire Hathaway til fjögurra góðgerðarsamtaka.
Samkvæmt The Wall Street Journal eru bréfin metin á 1,15 milljarð Bandaríkjadala eða um 159 milljarða íslenskra króna. Buffet mun eiga alls 206.363 A-bréf eftir gjöfina sem samsvarar um 148 milljörðum dala eða um 20,5 þúsund milljörðum króna.
Líkt og fyrr í mánuðinum er Buffet að breyta A-hlutum í B-hluti áður en hann gefur þá til góðgerðarmála en atkvæðisréttur A-hluta er mun meiri.
Hann er meðal annars að gefa stóran hluta bréfanna í Susan Thompson Buffett Foundation sem er góðgerðarsjóður sem nefndur er í höfuðið á fyrrum eiginkonu Buffetts sem lést árið 2004.
Buffet hefur árlega gefið hlutabréf í fjárfestingarfélaginu sínu yfir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum sem gekk yfir um helgina en í bréfi sínu í gær greindi hann frá áætlunum sínum um að börnin hans þrjú Susie, Howard og Peter Buffet muni sjá um auð hans þegar hann fellur frá.
Börnin þrjú sem eru á sextugs- og sjötugsaldri þurfa að vera einróma eftir andlát hans í ákvörðunum sínum um hvaða góðgerðarfélög þau styrkja.
Í bréfinu segir Buffet jafnframt að skilyrðið muni gefa börnum sínum örlitla vörn gegn stöðugum ásóknum í fé frá góðgerðarsamtökum líkt og búast megi við.
„Þeir sem geta útdeilt rosalegu fjármagni eru að eilífu dæmdir til að vera skotmark tækifærasinna,“ skrifaði Buffet.
„Þessi óþægilegi raunveruleiki fylgir þó ábyrgðinni og af þeim sökum er krafist einróma samþykkis,“ skrifaði hann.
Buffet skrifaði jafnframt að þó að það sé búið að ákveða hverjir muni sjá um að ávaxta fjármagnið vonar hann í einlægni sinni að Susie, Howard og Peter verði þau sem sjái sjálf alfarið um að dreifa eignum hans til góðgerðarmála.
„Ég þekki börnin mín þrjú og ég treysti þeim fullkomlega,“ skrifaði Buffet.