Fjár­festirinn War­ren Buf­fet, sem er orðinn 94 ára gamall, greindi frá því í bréfi til fjár­festa í gær að hann ætlar að gefa hluta af A-bréfum sínum í Berks­hire Hat­haway til fjögurra góð­gerðar­sam­taka.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal eru bréfin metin á 1,15 milljarð Bandaríkja­dala eða um 159 milljarða ís­lenskra króna. Buf­fet mun eiga alls 206.363 A-bréf eftir gjöfina sem sam­svarar um 148 milljörðum dala eða um 20,5 þúsund milljörðum króna.

Líkt og fyrr í mánuðinum er Buf­fet að breyta A-hlutum í B-hluti áður en hann gefur þá til góð­gerðar­mála en at­kvæðis­réttur A-hluta er mun meiri.

Hann er meðal annars að gefa stóran hluta bréfanna í Susan Thomp­son Buf­fett Founda­tion sem er góð­gerðar­sjóður sem nefndur er í höfuðið á fyrrum eigin­konu Buf­fetts sem lést árið 2004.

Buf­fet hefur ár­lega gefið hluta­bréf í fjár­festingarfélaginu sínu yfir þakkar­gjörðar­hátíðina í Bandaríkjunum sem gekk yfir um helgina en í bréfi sínu í gær greindi hann frá áætlunum sínum um að börnin hans þrjú Susi­e, Howard og Peter Buf­fet muni sjá um auð hans þegar hann fellur frá.

Börnin þrjú sem eru á sex­tugs- og sjötugs­aldri þurfa að vera ein­róma eftir and­lát hans í ákvörðunum sínum um hvaða góð­gerðarfélög þau styrkja.

Í bréfinu segir Buf­fet jafn­framt að skil­yrðið muni gefa börnum sínum ör­litla vörn gegn stöðugum ásóknum í fé frá góð­gerðar­samtökum líkt og búast megi við.

„Þeir sem geta út­deilt rosa­legu fjár­magni eru að eilífu dæmdir til að vera skot­mark tækifærasinna,“ skrifaði Buf­fet.

„Þessi óþægi­legi raun­veru­leiki fylgir þó ábyrgðinni og af þeim sökum er krafist ein­róma samþykkis,“ skrifaði hann.

Buf­fet skrifaði jafn­framt að þó að það sé búið að ákveða hverjir muni sjá um að ávaxta fjár­magnið vonar hann í ein­lægni sinni að Susi­e, Howard og Peter verði þau sem sjái sjálf al­farið um að dreifa eignum hans til góð­gerðar­mála.

„Ég þekki börnin mín þrjú og ég treysti þeim full­kom­lega,“ skrifaði Buf­fet.