Heimildir Viðskiptablaðsins herma að einstaklingar sem tóku þátt í tilboðsbók A fyrir háar fjárhæðir, eða allt að 20 milljóna króna hámarkinu í umræddri tilboðsbók, hafi í dag fengið símtöl frá Kviku banka um að selja eignarhlut sinn á 114 krónur á hlut.
Ekki hafa fengist upplýsingar um fyrir hvern bankinn er að vinna. Ætla má að það sé aðili eða aðilar sem fengu lítið sem ekkert í B eða C bókinni. Þeir sem buðu í bækur B og C eru meðal annars einkafjárfestar, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir.
Hið 114 króna tilboðsverð er 7% hærra en 106,56 króna útboðsgengið í útboðinu. Fjárfestir sem tók þátt í útboðinu fyrir 20 milljónir króna gæti því selt hlut sinn með 1,4 milljóna króna hagnaði og þarf ekki að fjármagna kaupin.
Á fimmtudaginn síðasta lauk útboði á eftirstandandi 45,2% hlut Íslandsbanka. Söluandvirði í útboðinu nam 90,6 milljörðum króna og var útboðsgengi 106,56 krónur á hlut. Alls tóku 31.274 einstaklingar þátt í tilboðsbók A þar sem meðaltilboð nam 2,8 milljónum króna.
Viðskiptablaðið fjallaði um það fyrir helgi að hópur efnameira fólks hafi safnað kennitölum í útboðinu og þannig reynt að tryggja sér stærri hlut á afslætti. Algengt hafi verið að menn hafi safnað 5-10 kennitölum og boðið fullan skammt í A bókinni, eða 20 milljónir króna.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka stóð í 118,5 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar á föstudaginn. Gengi bankans hefur fallið um 3% í dag og stendur í 115 krónum, eða 7,9% yfir útboðsgenginu, þegar fréttin er skrifuð.
Fjármálaráðuneytið greindi frá því á föstudaginn að tilboð í tilboðsbók A námu samtals 88,2 milljörðum króna eða sem samsvarar um 97,4% af heildarvirði útboðsins.