Eftir áramót munu framkvæmdir við nýja brú yfir Ölfusá hefjast. Þetta kemur fram í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi nema fjárframlög til samgöngumála 53 milljörðum króna á næsta ári.

„Mikil þörf er fyrir aukið viðhald vega og uppbyggingar vegamannvirkja vegna aukins umferðarþunga,” segir í tilkynningu ráðuneytisins. „Alls fara tæplega 29 milljarðar króna í ýmsar vegaframkvæmdir og viðhald á árinu 2024 og af því fara 2,5 milljarðar króna til félagsins Betri samgöngur sem fer með samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu.”

Það sem ber hæst í uppbyggingu vegamannvirkja er að á næsta ári hefjast framkvæmdir við byggingu nýrrar Ölfusárbrúar sem beðið hefur verið eftir lengi. Verður um að ræða mikla samgöngubót á Suðurlandi sem er eitt af stærri ferðamannasvæðum landsins.

Fyrsta brúin vígð árið 1891

Fyrsta brúin yfir Ölfusá var tekin í notkun haustið 1891. Tryggvi Gunnarsson, þingmaður og bankastjóri Landsbankans, gerði tilboð upp á 60 þúsund krónur í brúarsmíðina og var því tekið. Með honum í verkinu var enska málmsmíðafyrirtækið Vaughn & Dymond.

Undirbúningur verksins hófst árið 1889 og tveimur árum síðar var rúmlega 100 metra hengibrú byggð úr stáli vígð við hátíðlega athöfn. Í tengslum við brúarsmíðina var reist íbúarhús fyrir vinnumenn, sem í dag er rekið sem veitingahús og nefnist  Tryggvaskáli.  Auk þessara 60 þúsund króna sem Tryggvi kom með átti landshöfðingi að leggja til 6.000 krónur.

Í endurminningum sínum sagðist hann aldrei hafa fengið þá peninga. Brúin þjónaði tilgangi sínum allt til ársins 1944 þegar hún gaf sig er mjólkurbíll með annan togi óku yfir hana. Bílstjórar beggja bifreiðanna fóru í ána. Annar þeirra lést en hinn komst lífs af. Ári síðar, eða í desember 1945, var ný brú tekin í notkun og er það brúin sem enn er í notkun í dag.

Nánar er fjallað um málið í Við­skipta­blaðinu. Á­skrif­endur geta nálgast blaðið hér.