Hinum öra vexti Friðheima hafa ákveðnir vaxtarverkir. „Með því að stækka svona hratt þá verðum við að vera rosalega fljót að byggja upp innviði,” segir Knútur. Meðal þess er að sjá starfsfólki fyrir húsnæði. Fjórar íbúðir fyrir starfsfólk eru í byggingu á jörð Friðheima og verða starfsmannaíbúðirnar þá orðnar nítján í heildina að meðtöldum fjórum íbúðum sem leigðar eru í nágrenninu. „Það er hluti af að vera með rekstur úti á landi að sjá starfsfólki húsnæði. Það hefur einnig verið stefna okkar og að búa sem best að okkar starfsfólki. Við höfum lagt áherslu á að hver og einn geti haft íbúð fyrir sig, en íbúðirnar eru frá 50 fermetrum og upp í 100 fermetrar. Við höfum um leið lagt áherslu á að geta boðið okkar starfsfólki húsnæði á sanngjörnum kjörum,“ segir Knútur.
Honum sárnar hvernig hluti verkalýðsforrystunnar hefur still atvinnurekendum og launþegum upp hvor gegn öðrum. „Ég lít á að atvinnurekendur og launþegar séu í sama liði. Það skiptir okkur öllu máli að okkar fólk hafi það sem best, að þeir peningar sem verið er að greiða í laun nýtist sem best fyrir okkar fólk. Eftir því sem við höfum tækifæri til að greiða hærri laun og fólkið okkar hefur það betur þeim mun líklegra er að fólkið okkar sé ánægt. Ég lít alltaf á okkur í sama liði. Mér sárnar að verið sé að stilla okkur atvinnurekendum og launþegum upp sem hvorum sínum hópnum í stríði. Því við höfum sömu hagsmuni að reyna að hafa reksturinn sem bestan. Ég er alveg sammála að við þurfum að ná upp lægstu launum. En við þurfum að gera það af ákveðinni fagmennsku og skynsemi þannig að kaupmátturinn skili sér því að er engum greiði gerður, hvorki starfsfólki né fyrirtækjum, að fara inn í eitthvert vitleysisástand þar sem launahækkunum verður velt út í verðlag með tilheyrandi verðbólgu. Það er ástand sem við þekkjum svo vel í gegnum árin. Við eigum að geta nýtt okkur reynsluna af því og vera komin lengra.“
Nánar er rætt við Knút í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .