BYKO hefur hlotið Svansvottun á gluggum sínum en markmið vottunarinnar er að auka notkun á orkusparandi gluggum og útihurðum sem standast strangar kröfur um efnisval og framleiðsluferli og valda litlum áhrifum á umhverfið.

BYKO hefur framleitt glugga og hurðir í 32 ár og segir í tilkynningu frá fyrirtækinu að gluggarnir hafi langan endingartíma og valdi hverfandi loftslagsáhrif.

„Svanurinn er norrænt umhverfismerki sem allir þekkja og leiðandi á heimsvísu. Svansvottun felur í sér lífsferilsgreiningu og staðfestingu á gæðum vörunnar, meðal annars út frá líftímasjónarmiði og áhrifum hennar á umhverfi og heilsu,“ segir Sigurður Pálsson forstjóri BYKO.

Fyrst um sinn mun úrvalið í boði miðast við álklædda timburglugga og 75 mm þykk opnanleg fög og hurðir til að ná því U-gildi sem vottunin krefst.