Í Viðskiptablaði vikunnar er að finna ítarlegt viðtal við Kristin Má Gunnarsson, stofnanda tansaníska námufélagsins Baridi Group sem var metið á 6,5 milljarða króna í nýafstaðinni fjármögnunarlotu.
Þegar Baridi, sem var stofnað árið 2022, var enn í startholunum byrjaði stríðið í Úkraínu. Kristinn var nokkrum mánuðum síðar kallaður inn til þýska sendiherrans í Tansaníu, sem upplýsti hann um að Baridi væri á lista yfir félög með aðgang að málmum og öðrum efnum.
Þar sem ekki var lengur hægt að kaupa náttúrugas (LNG) frá Rússlandi horfði Þýskaland m.a. til þess að tryggja sér aukið framboð af kolum, þar á meðal frá Tansaníu.
„Ég hafði engan sérstakan áhuga á þessu fyrst, enda leit ég á þetta sem nokkuð óumhverfisvænan orkugjafa. Þá benti sendiherrann mér á að kolaverð væri búið að hækka úr 70 dollurum í 460 dollara á tonnið og lýsti þessu sem mikilvægu máli fyrir þjóðaröryggi Þýskalands og Evrópu.“
Úr varð að Baridi sendi út 50 þúsund tonn af kolum í ársbyrjun 2023 og var einn af fyrstu aðilunum til að flytja út kol frá Tansaníu. Félagið sendi út annað kolaskip í apríl 2023. Kristinn segir að það hafi verið heljarinnar framkvæmd að flytja allt þetta magn, en 667 kílómetrar eru frá námusvæðinu að næstu höfn. Baridi nýtti ágóðann til að opna koparleyfi.
„Hérna í Tansaníu eru öll efnin nánast á yfirborðinu. Að ná í kolin reyndist mjög einfalt, þetta var nánast eins og að taka sand. Verktakarnir sem aðstoðuðu okkur sögðu að þetta væri svona einfalt með önnur efni líka. Koparinn liggur t.d. nákvæmlega eins og kolin, í æðum sem eru 5-15 metra frá yfirborðinu. Þú vinnur kopar nákvæmlega eins og þú vinnur kol. Þú þarft aldrei að grafa mjög djúpa holu.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Kristin um námuverkefnið í Tansaníu í Viðskiptablaði vikunnar.