Þegar viðskiptavinir um heim allan panta vörur frá Kína tekur við flókið og umfangsmikið vöruflutningaferli, sem tengir saman smærri hafnir við minni borgir landsins við stærstu skipahafnirnar í stórborgunum á austurströnd Kína.

Þessar siglingaleiðir virka sem nokkurs konar þjóðvegur um Kína og á öllum stærstu ám landsins má sjá minni vöruflutningaskip sigla út með varning frá staðbundnum verksmiðjum og aftur til baka með auðlindir sem renna til sömu verksmiðja og borga.

Quzhou-höfnin er ein af þeim fjölmörgu höfnum í Kína sem liggja við árbakka og sér hún um að hlaða vörum í minni vöruflutningaskip ásamt því að taka á móti auðlindum eins og kolum frá Rússlandi og norðurhluta Kína, sem og timbri frá Kanada og Brasilíu. Hún er jafnframt stærsta innlenda höfnin í Zhejiang-héraði í suðurhluta Kína en héraðið er inni í landi og höfnin er við ána Qujiang.

Aðgangur að kínverskum höfnum er yfirleitt mjög takmarkaður, þar sem staðsetning þeirra og starfsemi fellur undir verndarvæng kínverska hersins. Blaðamaður Viðskiptablaðsins er nú á þessum slóðum og fékk leyfi til að heimsækja höfnina ásamt fréttamönnum ríkisrekna fjölmiðilsins CCTV.

Umfang vöruflutnings við Quzhou-höfn hefur fjórfaldast á síðustu fimm árum.
Umfang vöruflutnings við Quzhou-höfn hefur fjórfaldast á síðustu fimm árum.

Þúsund ára starfsemi

Höfnin sjálf hefur í raun verið starfrækt frá tímum Song- og Tang-keisaraveldisins sem voru uppi fyrir meira en þúsund árum síðan. Segja má að þá hafi hún í raun sinnt svipuðu verkefni og hún gerir í dag en fyrr á öldum var siglt með varning milli landshluta um kínverskar ár.

Á níunda áratug síðustu aldar var ákveðið að byggja vatnsaflsvirkjun skammt frá höfninni sem sér henni og nærliggjandi svæðum fyrir orku. Skipin fara um skipalyftur þegar þau sigla fram hjá virkjuninni, svipað og gert er þegar siglt er í gegnum Panamaskurðinn.

Árið 2018 var höfnin, eins og hún sést í sinni núverandi mynd, byggð upp og var hún tekin í notkun árið 2020. Á hverju ári fara meira en 50 milljónir tonna af varningi um Quzhou-höfnina en umfangið hefur fjórfaldast á síðustu fimm árum.

Innlend eftirspurn veitir mikla vernd

Siglt er með varning frá Quzhou til borgarinnar Jinin í Shandong héraði í norðurhluta Kína. Siglingaleiðin er um 1.800 kílmetrar en í Jinin er varningurinn svo meðal annars fluttur yfir Kyrrahafnið til Kanada og Evrópu.

Zhang Wei Kang, forstöðumaður við Quzhou-höfn.
Zhang Wei Kang, forstöðumaður við Quzhou-höfn.

Zhang Wei Kang, forstöðumaður fyrirtækjareksturs við höfnina, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þar sem bæði innflutningur og útflutningur við höfnina hafi aukist ár frá ári hafi starfsmenn byrjað að innleiða tækni á borð við gervigreind til að auka skilvirkni og nýta siglingatímann betur.

Aðspurður um núverandi viðskiptastríð milli Kína og Bandaríkjanna segir Zhang að höfnin sjálf hafi ekki orðið fyrir miklum áhrifum, þar sem hún þjónusti mikið af innlendri eftirspurn. Óvissan í Quzhou sé því ekki jafn mikil og í stærri höfnum, eins og í Shanghai og Ningbo, sem þjónusta alþjóðlega vöruflutninga.