Carbfix og Great Carbon Valley í Kenía hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf um kolefnisbindingu í Kenía en viljayfirlýsingin var undirrituð á loftslagsráðstefnunni COP28.
Great Carbon Valley vinnur að því að þróa loftslagsverkefni í Austur-afríska sigdalnum, sem meðal annars ganga út á föngun kolefnis úr andrúmsloftinu og bindingu þess í jarðlögum.
„Afríka er að mörgu leyti í góðri stöðu til að leggja af mörkum til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Við búum að umtalsverðum endurnýjanlegum orkuauðlindum og við höfum jarðlögin sem þarf til að binda kolefni varanlega,“ segir Bilha Ndirangu, forstjóri Great Carbon Valley.
Carbfix hefur í meira en áratug beitt eigin tækni til að fanga koldíoxíð (CO2) frá Hellisheiðarvirkjun og binda það varanlega í basaltjarðlögum þar sem það umbreytist í steindir.
„Við fögnum því að hefja samvinnu við Great Carbon Valley um að kanna möguleika á að nýta tækifærin sem Kenía hefur til að byggja upp grænan iðnað og vinna gegn loftslagsvánni. Ísland og Kenía eiga það sameiginlegt að búa að auðlindum sem geta nýst til að þróa og byggja upp loftslagslausnir, auðlindir á borð við jarðhita og basaltjarðlög sem geta bundið kolefni á öruggan og varanlegan hátt,“ segir Edda Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix.