Carbfix og kanadíska fyrirtækið Deep Sky hafa hafið samstarf til að kanna hvort jarðlög í Quebec henti til bindingar kolefnis í jörðu í því héraði.
Deep Sky, sem er með höfuðstöðvar í Montreal, er verkefnaþróunarfélag með áherslu á föngun koldíoxíðs úr andrúmsloftinu og varanlega bindingu þess í jörðu.
„Samstarf okkar við Deep Sky fellur að markmiði okkar um að þróa nýjar, sjálfbærar virðiskeðjur og lausnir til öruggrar og varanlegrar kolefnisbindingar í jörðu. Verkefnið í Quebec miðar að því að færa okkur skrefi nær markmiðum heimsins um kolefnishlutleysi og endurspeglar metnað beggja fyrirtækja til að vinna gegn loftslagsvánni,“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.
Könnunin lýtur að því að safna jarðfræðiupplýsingum um þrjú afmörkuð landsvæði, greina þær og framkvæma rannsóknir á sýnum til að fá hugmynd um þá eiginleika jarðefnanna sem mestu skipta fyrir steindabindingu.
„Markmið okkar er að byggja upp verkefni sem ganga út á föngun og bindingu kolefnis í Kanada. Til þess þurfum við að greina með skipulegum hætti á hvaða svæðum í Kanada helstu tækifærin til kolefnisbindingar liggja. Okkur er ánægja að vinna með Carbfix, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði kolefnisbindingar í jörðu, í þessu mikilvæga verkefni í Quebec,“ segir Damien Steel, forstjóri Deep Sky.