Carbfix og norska fyrirtækið Aker Carbon Capture hafa endurnýjað samstarf sitt og gildir samstarfsyfirlýsingin gildir í tvö ár. Samstarfsyfirlýsingin útilokar aftur á móti ekki samstarf við aðra aðila.
Norrænu fyrirtækin tvö hyggjast vinna saman að því að fanga og binda á bilinu 100.000 tonn til 1 milljón tonna af koltvíoxíð á ári með því að dæla því í basaltberglög þar sem náttúrulegir ferlar umbreyta því varanlega í steindir.
„Samstarfið við Carbfix endurspeglar skýran metnað til að dýpka samvinnu fyrirtækjanna og stuðla að framþróun kolefnisföngunar og -bindingar í Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Jon Christopher Knudsen, yfirmaður viðskipta hjá Aker Carbon Capture.
Í júlí 2021 hófu bæði fyrirtækin samstarf með Elkem á Íslandi til að reyna að draga úr kolefnislosun járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga með föngun og bindingu í jarðlögum. Ný samstarfsyfirlýsing Carbfix og Aker Carbon Capture lýtur að sameiginlegum áherslum fyrirtækjanna um að bjóða lausnir fyrir föngun og bindingu iðnaðarlosunar í Evrópu og Norður-Ameríku.
„Markmið Carbfix er að opna fleiri iðnfyrirtækjum aðgang að tækni okkar, annað hvort með því að fanga og binda CO2-losun frá þeim á staðnum eða flytja CO2 frá þeim til móttökustöðva. Samstarfið við Aker Carbon Capture gerir okkur kleift að ná til fleiri viðskiptavina og opnar möguleika á að bjóða þeim alla virðiskeðjuna þar sem það á við,“ segir Kristinn Ingi Lárusson, yfirmaður viðskipta hjá Carbfix.
Stærsta verkefni Carbfix um þessar mundir er Coda Terminal í Straumsvík og yrði hún sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Verkefnið hlaut í fyrra um 16 milljarða styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu en gert er ráð fyrir að fullbyggð geti Sódastöðin bundið 3 milljónir tonna af CO2 á ári.