Carbfix og alþjóðlega verkfræði- og verktakafyrirtækið Fluor hafa undirritað viljayfirlýsingu um að bjóða samþætta þjónustu á sviði kolefnisföngunar og -bindingar.

Í tilkynningu segir að fyrirtækin tvö munu nýta sérhæfða þekkingu hvors um sig til að bjóða viðskiptavinum heildstæðar lausnir til að draga úr losun.

„Loftslagsmarkmið heimsins munu ekki nást nema með stórfelldri aukningu á kolefnisföngun og -bindingu. Aðferð okkar til steinrenningar flýtir náttúrulegu ferli til að ná fram öruggri, hagkvæmri og varanlegri kolefnisbindingu. Samstarfið við Fluor stuðlar að vegferð okkar um að árleg kolefnisbinding Carbfix verði talin í milljónum tonna.“ segir Edda Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix.

Fluor mun beita tækni sem fyrirtækið hefur þróað til kolefnisföngunar sem nefnist Econamine FG PlusSM. Fyrirtækið hefur ennfremur víðtæka reynslu af umsjón með stórum verkefnum hvað varðar verkfræðilega hönnun, innkaup og framkvæmdir.

Viljayfirlýsingin opnar einnig á samvinnu fyrirtækjanna um að fanga CO2 úr andrúmslofti, hvort sem er með lofthreinsun eða lífrænum orkugjöfum, og binda það með Carbfix aðferðinni.

„Samstarfið við Carbfix er næsta skrefið í átt að því að bjóða iðnfyrirtækjum tækniþekkingu og samþættar lausnir þvert á virðiskeðju kolefnisföngunar og -bindingar til að draga úr losun. Saman getum við byggt á árangri Carbfix og haslað tækninni völl á öðrum svæðum í heiminum þar sem jarðfræðilegar aðstæður eru til staðar,“ segir Jason Kraynek, forstjóri orkusviðs Fluor.