Íslenska fyrirtækið Carbfix er á forsíðu nýjustu útgáfu tímaritsins National Geographic en útgáfan er væntanleg á næstu dögum. Í ítarlegri grein tímaritsins um loftslagslausnir er Carbfix-aðferðinni lýst sem einni þeirra lausna sem beita má til að vinna gegn hlýnun jarðar.

Yfirskrift greinarinnar er: „Nýtt vopn til að berjast gegn loftslagsbreytingum? Skilum kolefninu þangað sem við tókum það.“

Þetta vísar til þess að rætur loftslagsvandans liggja í vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu, en með Carbfix-aðferðinni er koldíoxíðinu skilað aftur ofan í jörðina.

Carbfix segir að síðan 2012 hafi fyrirtækið bundið yfir 90 þúsund tonn af CO2 í berglögum á Íslandi með eigin tækni sem sé örugg, sannreynd, varanleg og hagkvæm.

Í fyrra hlaut Coda Terminal loftslagsverkefni Carbfix, eða „Sódastöðin“, 115 milljón evru styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins og miðar að því að binda 3 milljónir tonna af CO2 á ári í Straumsvík.