Ítalski veitingastaðurinn Cibo Amore opnaði í dag nýjan veitingastað í Katrínartúni 2 og er nú hægt að nálgast samlokur þeirra á tveimur stöðum. Sá fyrsti opnaði í fyrrasumar í Hamraborg og hefur verið mikið að gera hjá eigendum síðan þá.
Þráinn Júlísson, Kristín Gyða Smáradóttir og Davíð Már Sigurðsson, eigendur Cibo Amore, tóku á móti blaðamanni Viðskiptablaðsins og öðrum gestum með snittum og rauðvíni í tilefni dagsins.
„Við vorum aðeins seinni til að opna en við ætluðum okkur en það eru allir í húsinu búnir að bíða spenntir eftir opnuninni. Það eru líka mörg fyrirtæki hérna í kring sem við þjónustum þannig þetta er mjög góð staðsetning,“ segir Davíð Már.
Cibo Amore býður upp á hágæða ítalskar samlokur og tekur einnig að sér veislu- og fyrirtækjaþjónustu. Davíð segir að með komu nýja veitingastaðarins muni öll veisluþjónusta færast niður í húsnæði fyrirtækisins við Kársnes og geti þá eigendur haldið betur utan um gæðin.
Frá því Cibo Amore opnaði hafa Íslendingar tekið vel í ítalskar samlokur og hafa nokkrir slíkir veitingastaðir bæst við. Davíð fagnar þeirri þróun og segir það ýta undir ítalska matarmenningu.
„Við erum nú bara að gera þetta skref fyrir skref og ef reksturinn skilar góðu þá skoðum við næsta skref. Það er búið að bjóða okkur nokkrar fleiri staðsetningar, þar á meðal á Suðurlandi og fyrir norðan.“