Coca Cola Europacific Partners á Íslandi er nýr bakhjarl Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands, en Gestur Steinþórsson, markaðsstjóri áfengra drykkja hjá CCEP og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups, innsigluðu samstarfið í Grósku á dögunum.
Gulleggið, sem haldið hefur verið af KLAK - Icelandic Startups í mörg ár, er ein vinsælasta frumkvöðlakeppni á Íslandi og hefur veitt mörgum frumkvöðlum forskot og gott veganesti inn í nýsköpunarumhverfið á Íslandi.
„Við hjá Coca Cola á Íslandi erum stolt af því að fá að styðja við bakið á Gullegginu sem er einstakur vettvangur hér á landi til að ýta undir nýsköpun og hvetja fólk með viðskiptahugmyndir til dáða. Samstarfið fellur vel að samfélagsstefnu okkar þar sem margar af þeim hugmyndum sem berast í Gulleggið geta átt þátt í að auka framþróun í tækni, sjálfbærni og umhverfismálum sem síðar gagnast samfélaginu öllu,” segir Anna Regína Björnsdóttir, forstjóri Coca-Cola á Íslandi.
Þau fyrirtæki sem hafa farið í gegnum Gulleggið má nefna Controlant, Taktikal, Meniga, PayAnalytics og Atmonia.
„Það er mikill styrkur fyrir Gulleggið, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands, að hafa fengið jafn öflugan styrktaraðila og Coca Cola Europacific Partners á Íslandi til liðs við okkur. KLAK - Icelandic Startups hefur getað státað sig af því að fá góða og sterka aðila í samstarf við Gulleggið og það er engin breyting á því í ár,” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups.