Hlutabréf í bandaríska bruggaranum Constellation Brands lækkuðu um 1% í framvirkum samningum þrátt fyrir 7% heildarsöluaukningu. Fyrirtækið framleiðir vinsæla mexíkóska bjóra eins og Corona.

Uppgjör fyrirtækisins var birt rétt fyrir lokun markaðar í gær og sýndi það fram á 12% meiri bjórsölu sem vó upp á móti 14% samdrætti í sölu á víni og sterku áfengi.

Constellation Brands hefur þar með hækkað afkomuspá sína fyrir árið í samræmi við uppgjörið. Mikil eftirspurn hefur til að mynda verið á Modelo-bjór fyrirtækisins og öðrum mexíkóskum bjórum sem Constellation bruggar.

Fram til gærdagsins höfðu hlutabréf í fyrirtækinu hækkað um 7,6% á árinu en Constellation hefur nú einnig hækkað væntingar sínar um hagnað út árið.