Creditinfo Lánstraust hf. segist hafa breytt verklagi við skráningar á vanskilaskrá í ljósi þess að Persónuvernd sektaði fyrirtækið um 38 milljónir króna.
Creditinfo var sektað vegna brota á árunum 2018- 2019 með því að hafa ekki gætt að heimild lánveitanda til að skrá vanskil lántaka á vanskilaskrá.
Sektarfjárhæðin er sú langhæsta sem Persónuvernd hefur gert nokkru fyrirtæki greiða en hún nemur 2,5% af ársveltu Creditinfo árið 2021. Hámarkssektarheimild Persónuverndar er 4% af ársveltu.
Hafa hert kröfur verulega
Í tilkynningu frá Creditinfo vegna málsins tekur fyrirtækið fram að það hefur nú þegar breytt verklagi við eftirlit með skráningum í vanskilaskrám.
„Creditinfo vill taka fram að fyrirtækið var samstarfsfúst við skoðun málsins og að fyrirtækið hefur hert verulega kröfur sem gerðar eru til þeirra sem nýta þjónustuna. Þá hætti Creditinfo viðskiptum við umrædda aðila,“ segir í tilkynningu.
Skráning í vanskilaskrá úrslitaatriði
„Það er grunnforsenda í okkar starfsemi að upplýsingar um ábyrgð og stöðu skuldara séu réttar. Þetta mál sneri meðal annars að því hvort þriðji aðili hefði haft heimild til að skrá upplýsingar á vanskilaskrá. Þegar málið kemur upp þá brugðumst við ekki rétt við í upphafi. Við hefðum átt að láta viðskiptavini þessa þriðja aðila njóta vafans,“ segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, forstjóri Creditinfo í tilkynningunni.
„Skráning á vanskilaskrá er íþyngjandi gagnvart öllum sem í hlut eiga og því er það algjört úrslitaatriði að við höfum þessa hluti í lagi. Þetta mál kom upp fyrir fjórum árum og við erum búin að grípa til ýmissa aðgerða sem eiga að hindra að slík mál komi upp aftur. Við höfum stóreflt fræðslu og upplýsingagjöf um hvernig farið er með skráningar á vanskilaskrá og hvaða réttinda fólk nýtur í þeim tilfellum. Fólk fær nú miklu meiri fræðslu en áður um sinn rétt og við erum fljótari að bregðast við athugasemdum frá lántökum,“ bætir hún við.