Fyrirtækið Dagar, sem sérhæfir sig í ræstingum og fasteignaumsjón , hefur hlotið ISO 14001 vottun, eitt íslenskra fyrirtækja á þessu sviði. Umhverfisstjórnunarkerfi Daga er þannig vottað og staðfest að fyrirtækið vinnur markvisst að stöðugum umbótum og árangri í umhverfismálum sem gerir því kleift að taka afgerandi skref í að bæta heildarárangur fyrirtækisins og viðskiptavina á sviði umhverfismála.

„Við höfum einsett okkur að axla ábyrgð í umhverfismálum og leggja okkur öll fram til að snúa við þeirri neikvæðu þróun sem blasir við í vistkerfi, náttúru og umhverfi okkar. Við tökum ákvörðun okkar um að standa með umhverfinu alvarlega og hefur hún mótað starfsemi okkar og fjárfestingar síðastliðin ár. ISO 14001 vottunin er til marks um það að við höfum helgað okkur þessu verkefni og skuldbundið okkar til að láta verkin tala og ná árangri,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga.

Um 800 einstaklingar starfa hjá Dögum sem hafa boðið upp á Svansvottaða ræstingaþjónustu síðan árið 2009. Skýr umhverfisstefna var tekin upp hjá fyrirtækinu fyrir nokkrum árum, ekki síst að minnka kolefnisspor þess, þar sem ökutæki hafa hlutfallslega mest áhrif. Því ákvað fyrirtækið að fara í orkuskipti á því sviði og er markvisst unnið að því að skipta út bílum sem keyra á jarðeldsneyti fyrir rafmagnsbíla og hafa stöðvar verið settar upp fyrir hleðslu þeirra.

Við lítum svo á að framlag Daga til umhverfismála sé tvíþætt. Annars vegar að vera í fararbroddi á okkar sviði í grænum lausnum og axla ábyrgð í umhverfismálum og hins vegar með því að fræða og hvetja viðskiptavini okkar til verklags sem leiðir til aukinnar endurvinnslu, minni sóunar og minni mengunar. Okkar umhverfisstefna er mjög skýr og ISO 14001 vottunin er staðfesting á þeirri vegferð sem við erum á,“ segir Pálmar Óli.