Á rúm­lega einu og hálfu ári fékk Halla Hrund Loga­dóttir for­seta­fram­bjóðandi greidda dag­peninga fyrir hátt í tvær milljónir vegna ferða­laga sinna er­lendis sem orku­mála­stjóri.

Á tíma­bilinu fór Halla Hrund tví­vegis til Belgíu, þrisvar til Banda­ríkjanna, Græn­lands, Slóvakíu, Egypta­lands, Bret­lands, Króatíu, Frakk­lands, Noregs og Argentínu.

Líkt og fram hefur komið í fjöl­miðlum gerðu bæði um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neytið og utan­ríkis­ráðu­neytið at­huga­semdir við fund Höllu Hrundar með argentínskum ráð­herra í Argentínu.

Í Argentínu undirritaði Halla Hrund vilja­yfir­lýsingu fyrir hönd Ís­lands við loft­lags­ráð­herra Argentínu án vit­neskju ís­lenska utan­ríkis­ráðu­neytisins. Halla Hrund lét ráðu­neytið, sem á annast sam­skipti við er­lend ráðu­neyti, ekki vita af ferðum sínum. Þá er rétt að taka fram að loftlagsráðherran er fyrrverandi bekkjasystir Höllu Hrundar.

Ferða­lög Höllu Hrundar á þessu einu og hálfu ári kostuðu skatt­greið­endur hátt í 6 milljónir en sjálf fékk hún hátt í 2 milljónir greiddar í dag­peninga.

Þetta kemur fram í gögnum sem Viðskiptablaðið fékk frá orkustofnun í fyrra vegna ferðalaga orkumálastjóra.

Fór til Egyptalands fyrir 1,5 milljón

Lang­dýrasta ferð Höllu Hrundar var til Egypta­lands á COP ráð­stefnuna í nóvember 2022. Þar er ferða­kostnaðurinn um 1,4 milljónir og fékk hún 177 þúsund krónur í dag­peninga.

Halla Hrund fékk síðan dag­peninga upp á 307 þúsund krónur fyrir 5 daga ferða­lag á ráð­stefnu í Banda­ríkjunum í septem­ber 2022.

Hún fékk einnig 109 þúsund krónur greiddar fyrir tveggja daga ferð til Króatíu í apríl 2023.

Argentínu­ferðin kostaði yfir hálfa milljón

Ferðakostnaður vegna ferðar Höllu Hrundar til Argentínu kostaði um 548 þúsund krónur. Sjálf fékk hún greidda dag­peninga fyrir 107 þúsund krónur vegna ferðarinnar.

Ó­dýrasta ferð Höllu Hrundar á tíma­bilinu var eins dags fræðslu­ferð til Noregs um hag­nýtingu vinds í apríl 2023.

Ferða­kostnaður Noregsferðarinnar var 180 þúsund krónur og fékk hún 63 þúsund krónur í dag­peninga.

Ferðalög, kostnaður og dagpeningar Höllu Hrundar.

2021: Erindi Tímabil Dagpeningar flug/fl.
Bretland COP Ráðstefna 31.10-04.11 80.700 kr. 368.861 kr.
USA Kynning,Hvarvard COP 14.11 til 16.11 114.606 kr. 77.795 kr.
2022
Belgia/Brussel Fundur með ESA 29.03-01.04 79.723 kr. 176.906 kr.
USA Fundur 16.05-19.05 149.245 kr. Vantar
Grænland Erindi 26.08-29.08 137.037 kr. 241.485 kr.
USA Ráðstefna GCEAF 19.09-24.09 307.623 kr. 156.916 kr.
Slóvakía SARIO 26.10-28.10 96.926 kr. 150.855 kr.
Eygptaland COP ráðstefna 08.11-18.11 177.317 kr. 1.381.176 kr.
Belgia/Brussel EFTA fundur 31.11-02.12 110.128 kr. 120.375 kr.
2023
Noregur Fræðsluferð um vind 25.04-26.04 63.337 kr. 179.916 kr.
Króatía Erindi á ráðstefnu 12.04-14.04 109.742 kr. 152.155 kr.
Strasbourg Erindi 01.05-03.05 96.546 kr. 134.943 kr.
Argentína Erindi og fundur 15.05-21.05 107.183 kr. 547.790 kr.
Samtals 1,629 m.kr 3,689 m.kr.