Í gær greindi Financial Times frá því að börn Silvio Berlusconi, sem lést 86 ára gamall í júní, hafi ákveðið að selja glæsilegt sumarhús fyrrum forsætisráðherrans á Sardiníu. Verðmiðinn er sagður verið jafnvirði 75 milljarða króna.

Margir valdamestu menn heims sóttu Silvio heim í Villa Certosa. Meðal þeirra sem hafa dvöldu þar voru Davíð Oddson, Tony Blair, George Bush og Vladimír Pútín.

Morgunblaðið fjallaði um heimsókn Davíðs til Rómar og Sardiníu þann 10. september 2002.

Þar sagði Davíð að hann hafi átt fund með forsætisráðherranum ítalska í Róm en síðan dvalið yfir helgi á Sardiníu.

Villan góða á Sardiníu.

Heldur stærra en sumarhús Davíðs

Aðspurður um sumarhús Berlusconi sagði Davíð það heldur stærra en sitt og með rafmagni.

„Nei, sumarhús Berlusconis líkist ekki mínu sem er 22 fermetrar og ekki með rafmagni. Á okkar mælikvarða er þetta líklega lítil höll. Hann á mikið landsvæði á Sardiníu og ein fimm hús þarna í nágrenninu.

Þetta er afskaplega falleg eyja og þegar hann bauð mér að dvelja þarna vildi ég ekki slá hendinni á móti því. Aðalhús hans er þó í nágrenni Mílanó og ég las að það væru 70 herbergi í því húsi. En þar hef ég þó ekki komið.“

Davíð Oddsson og Silvio Berlusconi í opinberri heimsókn ítalska forsætisráðherrans árið 2002.
© Mbl (Mbl)

Davíð sagði vissulega óvenjulegt að fara í heimsókn í sumarhús forsætisráðherra Ítalíu.

„En hann bauð mér að dvelja þar með sér um helgi og ég þáði það. Ég hitti Berlusconi reyndar fyrst árið 1994, að ég hygg, þegar hann var forsætisráðherra í fyrra skiptið þannig að ég hef þekkt til hans í allmörg ár.

Við sitjum yfirleitt annaðhvort saman eða mjög nálægt hvor öðrum vegna stafrófsröðunar á alþjóðlegum fundum. Við þekkjumst því orðið ágætlega og það er gott á milli okkar.“

Helmut Kohl kanslari Þýslandslands 1982-1998 og Wolfgange Schauble.

Hitti Schäuble á Sardiníu

Fleiri valdamenn voru staddir á eynni á sama tíma og Davíð. Þeirra á meðal voru Wolfgang Schäuble sem leiddi sameiningaviðræður Vestur og Austur Þýskalands fyrir hönd ríkisstjórnar Helmut Kohl og varð einn valdamesti maður Evrópu sem fjármálaráðherra Þýskalands á árunum 2009-2017. Schauble lést lok desember en honum var sýnt banatilræði árið 1990 og var bundinn við hjólastól síðan.

Fróðlegar umræður

„Á Sardiníu hitti ég raunar fleiri menn og á sunnudagskvöldið snæddu þar til að mynda með okkur forsætisráðherra Portúgals, Schäuble, fyrrverandi formaður kristilega demókrataflokksins og Wilfred Martens, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu.

Þannig að þar fóru fram fróðlegar umræður um þau mál sem efst eru á baugi hér í Evrópu og reyndar á heimsvísu. En áður höfðum við Berlusconi haft tækifæri til þess að ræða saman okkar á milli.“

Davíð um Berlusconi

Davíð benti á í viðtalinu að Berlusconi væri afar óvenjulegur maður en nyti mikilla vinsælda á Ítalíu um þessar mundir.

„Hann er auðvitað ólíkur mörgum öðrum stjórnmálamönnum hvað það varðar að hann er talinn með efnaðri mönnum í veröldinni og efnaðasti maður Ítalíu. Fæstir stjórnmálamenn sem ég kannast við eru efnum búnir þannig að Berlusconi er á marga lund ólíkur öðrum stjórnmálamönnum sem ég hef kynnst. Hann byrjaði auðvitað á því að verða forystumaður og helsti framkvæmdamaður og atvinnurekandi á Ítalíu áður en hann fór í stjórnmál. Hann er nú forsætisráðherra í annað sinn og hefur setið í fimmtán mánuði en það telst vera alllangur tími á Ítalíu.“

Davíð sagði í viðtalinu að ríkisstjórn Berlusconis nyti mikilla vinsælda þá og hann sjálfur hafi mælst vinsælli en hafi þekkst á Ítalíu. Hann hafi notið stuðnings yfir 65% ítölsku þjóðarinnar.