Deloitte á Íslandi og EY á Íslandi hafa átt í viðræðum um mögulegan samruna fyrirtækjanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Deloitte.
„Viðræður eru í gangi og með fyrirvara um gerð áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins,“ segir í tilkynningunni en um er að ræða tvö af stærstu endurskoðendafyrirtæki landsins. Forviðræður við Samkeppniseftirlitið eru yfirstandandi.
„Deloitte er leiðandi í faglegri þjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Við störfum á virkum samkeppnismarkaði þar sem eftirspurn frá viðskiptavinum eftir víðtækri hágæða heildarþjónustu fer vaxandi.
Við teljum að samlegðaráhrif sé að finna í áherslum og rekstri fyrirtækjanna, sem hvert um sig hefur sín séreinkenni og styrkleika. Sameiningin mun gera okkur kleift að halda áfram að hafa áhrif á það sem skiptir máli á sívaxandi og breytilegum markaði; að veita viðskiptavinum okkar fjölbreytta þjónustu í faglegri ráðgjöf,“ er haft eftir Þorsteini Pétri Guðjónssyni, forstjóra Deloitte á Íslandi í tilkynningunni.