Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sækist eftir fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum í vor en prófkjör fer fram þann 12. mars.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, tilkynnti nýlega að hann myndi láta af störfum eftir kosningarnar í vor eftir áratug sem bæjarstjóri.
Í tilkynningu frá Ásdísi segist hún vilja leggja áherslu á ábyrgan rekstur og góða þjónustu en um leið að stilla gjöldum og álögum á fólk og fyrirtæki í hóf. Styrkja þurfi tekjustofna bæjarfélagsins og fjölgað atvinnutækifærum með því að laða frekar öfluga starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja í bæjarfélagið. Tryggja þurfi að öll stjórnsýsla sé skilvirk og snurðulaus, að erindi séu afgreidd hratt og örugglega og lögð verði áhersla á að spara fólki sporin með stafrænum lausnum.
Ásdís sem er með gráðu í verkfræði og hagfræði hefur starfað hjá Samtökum atvinnulífsins síðustu átta ár. Þar áður var hún meðal annars forstöðumaður greiningardeildar Arion banka og hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu.