Disney-samstæðan er á lokametrunum að ná samningi við íþróttastreymisveituna FuboTV en streymisveitan mun þannig sameinast Disney+ sem inniheldur nú þegar Hulu.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefur verið unnið að samningnum síðustu mánuði en hlutabréfaverð Fubo hefur hækkað um 158% við opnun markaða í gær.
Fubo stefndi Disney og öðrum streymisveitum í febrúar í fyrra vegna þess að Disney, ESPN, Warner Bros. Discovery og FOX Corp. ætluðu að opna sameiginlega íþróttastreymisveitu undir nafninu Venu Sports.
Í stefnu Fubo sagði að með þeim samruna myndi lítið félag eins og FuboTV ekki getað keppt þar sem streymisveita af þessari stærð myndi einoka markaðinn.
Í ágúst í fyrra komst dómstóll í Bandaríkjunum að þeirri niðurstöðu að streymisveitan Venu Sports væri í andstöðu við samkeppnislög í Bandaríkjunum en þeirri niðurstöðu var áfrýjað.
Að sögn WSJ mun Fubo falla frá lögsókninni í kjölfar yfirtöku Disney á félaginu.
Venu Sports hefur gefið út að streymisveitan muni kosta 42,99 dali á mánuði eða um 5.995 krónur en áskrifendur geta þar horft meðal annars á NBA, NFL og MLB leiki ásamt fjölmörgum íþróttakappleikjum meðal bandarískra háskóla.
Mun það vera mun ódýrara en til dæmis áskriftarverð á kapasjónvarpi eins og ESPN sem getur kostað um allt að 100 dali á mánuði eða tæplega 14 þúsund krónur.