Birgir Þór Bieltvedt hefur áhuga á að sameina rekstur Domino‘s félaga á Norðurlöndunum og skrá sameiginlegt félag á markað. „Ég held að skráning geti veitt tækifæri á að vaxa hraðar, það er ljóst,“ segir Birgir í viðtalsþættinum Dagmál sem er á vegum mbl.is .

Á mánudaginn var tilkynnt um að hópur fjárfesta, leiddur af Birgi, hafi gengið frá kaupum á Domino‘s á Íslandi, með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, af breska félaginu Domino‘s Pizza Group. Fjárfestahópurinn samanstendur af Eyju fjárfestingarfélagi, Kristni ehf., Sjávarsýn ehf. og Lýsi ehf. Birgir er einnig hluti af í eigendahópi Domino‘s starfseminnar í Noregi og Svíþjóð ásamt því að vera sérleyfishafi að rekstrinum í Finnlandi.

Hann tekur þó að það sé ekki sjálfgefið að íslenska félagið verði hluti af samruna skandinavísku félaganna. „Það getur vel hugsast en það er eitthvað sem hluthafar þurfa að ræða saman um og liggur ekkert á að taka ákvörðun um, en af hverju ekki?“

Fjölgar Domino‘s stöðum úr 23 í 30?

Birgir telur að tækifæri séu fólgin í því að fjölga Domino‘s veitingastöðunum hérlendis, sem eru nú 23 talsins. Hann nefnir í þeim efnum að launakostnaður lækki og að fjölgun veitingastaða minnki heimsendingarsvæði sem leiði til styttri heimsendingartíma.

„Við erum búin að opna 23 staði á Íslandi sem er ótrúlega mikið miðað við höfðatölu. En því fleiri búðir sem þú ert með, því betri þjónustu áttu að geta veitt og að sama skapi áttu að geta verið með lægri launakostnað. Þannig að ég held að það sé hægt að koma Domino‘s á Íslandi í að minnsta kosti 30 staði,“ segir Birgir.