Olíufélagið BP hyggst draga sig út úr verkefni sem felst í framleiðslu svokallaðs græns vetnis í vesturhluta Ástralíu. Á sínum tíma var talið að verkefnið hafi kostað um 36 milljarða Bandaríkjadala, eða ríflega 4.300 milljarða íslenskra króna.
Samkvæmt frétt Bloomberg verður BP, sem kom inn í verkefnið árið 2022, hvorki stjórnandi né hluthafi en að sögn talsmanns BP er verkefnið ekki lengur í takt við stefnu félagsins. Unnið yrði með Australian Renewable Energy Hub, sem einnig stóð fyrir verkefninu, til að tryggja næstu skref.
BP hefur á undanförnum árum reynt að einblína á endurnýjanlega orkugjafa í auknum mæli í stað olíu. Félagið hafi þó ekki náð tilætluðum árangri í rekstrinum sem hafi kallað á breytingar og nú verði áhersla lögð á að auka hagnað með arðbærari verkefnum.
Fleiri fyrirtæki hafa dregið sig úr verkefnum sem snúa að framleiðslu vetnis í Ástralíu, þar á meðal Fortescue og Origin Energy, þar sem kostnaður við framleiðsluna hefur reynst of mikill.