Uppgjöri vegna kaupa Orkunnar IS ehf., dótturfélags Skeljar fjárfestingafélags hf., á hlutafé í Samkaupum hf. er nú formlega lokið.
Jafnframt hefur sameining Samkaupa og Atlögu ehf. (áður Heimkaup) tekið gildi og félögin verða hluti af nýstofnuðu samstæðufélagi, Drangar hf., samkvæmt kauphallartilkynningu.
Í kjölfar samrunans afhentu fyrrum hluthafar Samkaupa 98,6% hlut í félaginu gegn afhendingu á 582,5 milljónum hluta í Dröngum, sem jafngildir 28,7% hlutafjár í félaginu.
Aðrir hluthafar Samkaupa geta nú selt sína hluti á sömu kjörum og Dröngum er jafnframt heimilt að innleysa þá samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.
Drangar hf. taka formlega yfir hlutafé í Samkaupum, Orkunni og Lyfjavali og verða þar með móðurfélag samstæðu sem mun halda utan um öll þessi félög. Samtals nam veltan innan þessara fyrirtækja um 75 milljörðum króna árið 2024.
Í stjórn Dranga hf. sitja Jón Ásgeir Jóhannesson (stjórnarformaður), Magnús Ingi Einarsson, Liv Bergþórsdóttir, Garðar Newman og Margrét Guðnadóttir.
Forstjóri verður Auður Daníelsdóttir, sem jafnframt heldur áfram sem forstjóri Orkunnar.
Helstu hluthafar Dranga verða:
- SKEL fjárfestingafélag hf. – 68,3%
- Kaupfélag Suðurnesja svf. – 15,0%
- Birta lífeyrissjóður – 5,3%
- Festa lífeyrissjóður – 2,9%
- Kaupfélag Borgfirðinga svf. – 2,8%
- Norvik hf. – 2,5%
Í samrunaferlinu var lagt til grundvallar að virði hlutafjár Dranga væri 19,3 milljarðar kr., en heildarvirði án leiguskuldbindinga (enterprise value) væri 27,3 milljarðar kr.
Drangar hyggst hækka hlutafé sitt í haust og hefur ráðið Íslandsbanka hf. sem umsjónaraðila og Fossa fjárfestingarbanka hf. sem söluráðgjafa.
Útboðið verður sölutryggt að fjárhæð 2 milljarðar króna og kynningar til fjárfesta hefjast í byrjun september.
Stefnt er að því að Drangar hf. verði skráð á skipulegan verðbréfamarkað fyrir árslok 2027.
Ráðgjafar Skeljar og Orkunnar í samrunanum voru Fossar fjárfestingarbanki hf.