Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), hefur ákveðið að segja af sér. Í ljósi kjaraviðræðna telur hún skynsamlegt að hætta sem fyrst. „Til að taka af allan vafa er þetta ekki hluti af einhverri stærri fléttu, ég einfaldlega hverf af þessum vettvangi án þess að hyggja á endurkomu,“ segir Drífa í yfirlýsingu.
Hún segir að átök innan ASÍ hafi verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. Þá segir hún að í ljósi ákvarðana og áherslna einstakra stéttarfélaga, sem fari þvert gegn sinni sannfæringu, telur hún sig ekki geta setið áfram sem forseti.
„Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki samleið með í baráttunni. Og ég hef sem forseti verið í þeirri stöðu sem ég ætlaði mér aldrei; að telja mig ekki eiga annars kost en að gagnrýna stjórnarákvarðanir og formenn stærstu stéttarfélaga innan ASÍ.“
Hún nefnir sérstaklega hópuppsögn sem stjórn Eflingar stóð fyrir og „linnulausri en óljósri gagnrýni“ Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.
„Dæmin eru fleiri og það sem fólk leyfir sér í samskiptum hvert við annað innan hreyfingarinnar er henni ekki til framdráttar og félögum ekki til hagsbóta.“
Yfirlýsing Drífu í heild sinni:
Ég hef ákveðið að segja af mér embætti forseta Alþýðusambands Íslands og þeim trúnaðarstöðum sem ég hef gegnt sem forseti. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þing ASÍ er í byrjun október og ég þurfti að gera það upp við mig hvort ég gæfi áfram kost á mér. Þegar ég hugsaði málið varð niðurstaða mín sú að ég treysti mér ekki til að starfa áfram yrði ég til þess kjörin og af því leiddi að það væri skynsamlegt í ljósi kjaraviðræðna og undirbúning þingsins að hætta sem fyrst. Ég veit að ég nýt mikils stuðnings félaga og í samfélaginu og fyrir það er ég þakklát. Það eru hins vegar samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hefur átt sér stað sem gera mér það ókleift að starfa áfram sem forseti ASÍ.
Ég hef ekki vílað fyrir mér að taka slaginn fyrir launafólk gagnvart stjórnvöldum eða atvinnurekendum enda er það hluti af því að vera í verkalýðsbaráttu. Átök innan ASÍ hafa hins vegar verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. Þegar við bætast ákvarðanir og áherslur einstakra stéttarfélaga sem fara þvert gegn minni sannfæringu er ljóst að mér er ekki til setunnar boðið. Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki samleið með í baráttunni. Og ég hef sem forseti verið í þeirri stöðu sem ég ætlaði mér aldrei; að telja mig ekki eiga annars kost en að gagnrýna stjórnarákvarðanir og formenn stærstu stéttarfélaga innan ASÍ. Þegar stjórn Eflingar stóð fyrir hópuppsögn á skrifstofu félagsins sá ég mig knúna til að mótmæla þeim, enda hefur verkalýðshreyfingin barist gegn hópuppsögnum í tímans rás. Ég þurfti einnig að bregðast við linnulausri, en óljósri gagnrýni formanns VR á mín störf. Dæmin eru fleiri og það sem fólk leyfir sér í samskiptum hvert við annað innan hreyfingarinnar er henni ekki til framdráttar og félögum ekki til hagsbóta.
Verkalýðshreyfingin er ein merkilegasta mannréttindahreyfing heims og hjarta mitt hefur slegið þar og mun gera það áfram. Ég get hins vegar ekki sinnt störfum mínum lengur sem forseti ASÍ. Þá er hreinlegast að segja þetta gott. Og til að taka af allan vafa er þetta ekki hluti af einhverri stærri fléttu, ég einfaldlega hverf af þessum vettvangi án þess að hyggja á endurkomu.
Stuðningsfólki mínu þakka ég af öllu hjarta og bið um skilning á þessari ákvörðun.
Drífa Snædal