Dropp hefur gengið frá kaupum á 75% hlut í Górillu vöruhúsi, sem sérhæfir sig í vöruhýsingu, afhendingu og dreifingu á vörum fyrir netverslanir og heildsölur.

„Fyrst um sinn verða félögin rekin áfram hvort í sínu lagi en þau sjá veruleg samlegðaráhrif af því að samþætta reksturinn á næstu misserum. Heildarþjónustan sem sameinað fyrirtækið getur boðið var hins vegar sá þáttur sem réð mestu um ákvörðunina,“ segir í fréttatilkynningu um viðskiptin.

Sameinað fyrirtæki mun þjónusta yfir 700 viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði og bjóða upp á heildstæða lausn fyrir hýsingu og dreifingu.

Dropp hefur gengið frá kaupum á 75% hlut í Górillu vöruhúsi, sem sérhæfir sig í vöruhýsingu, afhendingu og dreifingu á vörum fyrir netverslanir og heildsölur.

„Fyrst um sinn verða félögin rekin áfram hvort í sínu lagi en þau sjá veruleg samlegðaráhrif af því að samþætta reksturinn á næstu misserum. Heildarþjónustan sem sameinað fyrirtækið getur boðið var hins vegar sá þáttur sem réð mestu um ákvörðunina,“ segir í fréttatilkynningu um viðskiptin.

Sameinað fyrirtæki mun þjónusta yfir 700 viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði og bjóða upp á heildstæða lausn fyrir hýsingu og dreifingu.

Dropp byrjaði að afhenda vörur fyrir netverslanir árið 2019 og er í dag með 105 afhendingarstaði um allt land auk þess að bjóða upp á heimsendingar á stórhöfuðborgarsvæðinu.

Hrólfur Andri Tómasson, framkvæmdastjóri Dropp, segir að kaupin á Górillu, sem rekur stórt vöruhús á Korputorgi, séu til þess fallin að stytta afhendingartíma enn frekar og gera netverslunum kleift að bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu með lágmarks tilkostnaði.

„Síðustu fjögur ár höfum við hjá Dropp einbeitt okkur að því að afhenda vörur fyrir netverslanir hratt og örugglega. Þegar viðskiptavinur leggur inn pöntun fyrir vörum sem eru hýstar hjá Górillu eru þær komnar til okkar fyrir hádegi næsta virka dag. Tíminn frá pöntun til afhendingar er því stuttur og það sem meira er: hann er alltaf sá sami hvort sem um mikið eða lítið magn sendinga er að ræða,” segir Hrólfur Andri.

„Þetta samspil kveikti áhugann hjá okkur og við höfum séð fjölmargar netverslanir blómstra sem nýta sér Górillu. Við höfum metnað til að byggja ofan á þann árangur sem skilaði okkur hæstu einkunn allra fyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni 2023 og Górilla smellpassar við þá vegferð.”

Fyrirtækin hafa átt í nánu samstarfi undanfarin ár og Egill Fannar Halldórsson, framkvæmdastjóri og meðeigandi Górillu vöruhúss, segir að það hafi komið sífellt betur í ljós hversu mikil tækifæri eru fólgin í því að sameina kraftana.

„Það hefur skinið í gegn að Dropp er framúrskarandi á sínu sviði og með því að sameina krafta okkar getum við boðið íslenskum fyrirtækjum heildstæðari lausn og enn betri þjónustu heilt yfir. Bæði fyrirtækin eru rosalega metnaðarfull og hafa hrist upp í markaðnum með því að bjóða betri lausnir en áður voru í boði. Við viljum halda þeirri vegferð áfram, vera drifkraftur fyrir frumkvöðlastarfsemi og gera fleirum kleift að stofna og reka samkeppnishæf fyrirtæki,“ segir Egill Fannar.

Górilla Vöruhús var stofnað 2018 með þá hugsjón að bjóða upp á betra rekstrarumhverfi fyrir íslenska frumkvöðla í netverslun og heildsölu. Í dag þjónustar Górilla fleiri en 100 íslensk og alþjóðleg fyrirtæki með vöruhýsingu, afgreiðslu og dreifingu. Markmið Górillu er að bæta þjónustu, lækka rekstrarkostnað og almennt einfalda rekstur netverslana og heildsala.