Sam­kvæmt greiningu Við­skiptaráðs njóta opin­berir starfs­menn sérréttinda sem jafn­gilda um 19% kaup­hækkun miðað við einka­geirann.

Um er að ræða ýmis starfs­tengd réttindi það sem þekkist í einka­geiranum en þeir vinna styttri vinnu­viku, hafa ríkari veikindarétt, aukið starfsöryggi og lengra or­lof.

Sérréttindi eru metin til fjár með því að bera saman áhrif starfs­tengdra réttinda á eigin­legt tíma­kaup opin­berra starfs­manna annars vegar og starfs­fólks í einka­geiranum hins vegar.

„Styttri vinnu­vika vegur þar þyngst og jafn­gildir 11,1% kaup­hækkun opin­berra starfs­manna. Ríkari veikindaréttur jafn­gildir 3,3% kaup­hækkun, aukið starfsöryggi 2,7% kaup­hækkun og lengra or­lof 1,4% kaup­hækkun. Þegar allt fernt er tekið saman jafn­gilda sérréttindi opin­bers starfs­manns 18,6% hærra tíma­kaupi en hjá starfs­manni í einka­geiranum með sömu mánaðar­laun,” segir í til­kynningu Við­skiptaráðs.

77% stofnana inn­leiddu há­marks­vinnutíma­styttingu

Í greiningunni kemur fram að vinnu­vika opin­berra starfs­manna er að meðaltali 3,4 klukku­stundum styttri en hjá starfs­fólki í einka­geiranum. Meðal­fjöldi viku­legra vinnu­stunda er 32,3 klukku­stundir hjá hinu opin­bera en 35,7 klukku­stundir í einka­geiranum.

„Stytting vinnu­vikunnar hefur gengið lengra hjá hinu opin­bera en í einka­geiranum. Í dag­vinnu var al­gengt að styttingin næmi 4 klst. á viku hjá hinu opin­bera en nam 0,45 til 1 klst. í einka­geiranum. Í vakta­vinnu gat vinnu­vikan styst í allt að 32 klst. hjá hinu opin­bera en var lítil eða engin í einka­geiranum.“

Við inn­leiðingu til­rauna­verk­efnis um styttingu vinnu­vikunnar virðist sem mark­mið um aukna skil­virkni og bætta þjónustu hafi orðið undir.

Í skýrslu KPMG kemur fram að 77% stofnana inn­leiddu há­marks­vinnutíma­styttingu í fyrsta skrefi. Þá séu „vís­bendingar um að gæði þjónustunnar hafi minnkað,“ en 13 af 15 stofnunum í skýrslunni lækkuðu í þjónustukönnunum á tíma­bilinu.

„Lengd vinnu­vikunnar er misjöfn eftir at­vinnu­greinum og það skýrist m.a. af ólíku eðli starfa og mis­miklu vægi hluta­starfa. Þá leiðir ólík út­færsla virkra vinnu­stunda einnig til styttri vinnutíma opin­berra starfs­manna. Hjá hinu opin­bera er t.d. matar- og kaffi­hlé al­mennt talið til vinnutíma ólíkt því sem tíðkast í einka­geiranum.“

Við mat á áhrifum styttri vinnutíma á eigin­legt tíma­kaup notaði Við­skiptaráð meðal­fjölda viku­legra vinnu­stunda í aðal­starfi fyrir opin­bera starfs­menn annars vegar og starfs­fólk í einka­geiranum hins vegar.

Þá er veikindaréttur ríkari hjá hinu opin­bera og veikinda­fjar­vistir tvöfalt al­gengari. Veikindaréttur fer eftir starfs­aldri og er í sumum til­fellum marg­faldur hjá hinu opin­bera saman­borið við einka­geirann. Sem dæmi á opin­ber starfs­maður rétt á 95 veikinda­dögum eftir eitt ár í starfi. Í einka­geiranum á starfs­maður í sömu sporum rétt á 24 veikinda­dögum á ári.

Hægt er að lesa greiningu Við­skiptaráðs í heild sinni hér.