Samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs njóta opinberir starfsmenn sérréttinda sem jafngilda um 19% kauphækkun miðað við einkageirann.
Um er að ræða ýmis starfstengd réttindi það sem þekkist í einkageiranum en þeir vinna styttri vinnuviku, hafa ríkari veikindarétt, aukið starfsöryggi og lengra orlof.
Sérréttindi eru metin til fjár með því að bera saman áhrif starfstengdra réttinda á eiginlegt tímakaup opinberra starfsmanna annars vegar og starfsfólks í einkageiranum hins vegar.
„Styttri vinnuvika vegur þar þyngst og jafngildir 11,1% kauphækkun opinberra starfsmanna. Ríkari veikindaréttur jafngildir 3,3% kauphækkun, aukið starfsöryggi 2,7% kauphækkun og lengra orlof 1,4% kauphækkun. Þegar allt fernt er tekið saman jafngilda sérréttindi opinbers starfsmanns 18,6% hærra tímakaupi en hjá starfsmanni í einkageiranum með sömu mánaðarlaun,” segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.
77% stofnana innleiddu hámarksvinnutímastyttingu
Í greiningunni kemur fram að vinnuvika opinberra starfsmanna er að meðaltali 3,4 klukkustundum styttri en hjá starfsfólki í einkageiranum. Meðalfjöldi vikulegra vinnustunda er 32,3 klukkustundir hjá hinu opinbera en 35,7 klukkustundir í einkageiranum.
„Stytting vinnuvikunnar hefur gengið lengra hjá hinu opinbera en í einkageiranum. Í dagvinnu var algengt að styttingin næmi 4 klst. á viku hjá hinu opinbera en nam 0,45 til 1 klst. í einkageiranum. Í vaktavinnu gat vinnuvikan styst í allt að 32 klst. hjá hinu opinbera en var lítil eða engin í einkageiranum.“
Við innleiðingu tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar virðist sem markmið um aukna skilvirkni og bætta þjónustu hafi orðið undir.
Í skýrslu KPMG kemur fram að 77% stofnana innleiddu hámarksvinnutímastyttingu í fyrsta skrefi. Þá séu „vísbendingar um að gæði þjónustunnar hafi minnkað,“ en 13 af 15 stofnunum í skýrslunni lækkuðu í þjónustukönnunum á tímabilinu.
„Lengd vinnuvikunnar er misjöfn eftir atvinnugreinum og það skýrist m.a. af ólíku eðli starfa og mismiklu vægi hlutastarfa. Þá leiðir ólík útfærsla virkra vinnustunda einnig til styttri vinnutíma opinberra starfsmanna. Hjá hinu opinbera er t.d. matar- og kaffihlé almennt talið til vinnutíma ólíkt því sem tíðkast í einkageiranum.“
Við mat á áhrifum styttri vinnutíma á eiginlegt tímakaup notaði Viðskiptaráð meðalfjölda vikulegra vinnustunda í aðalstarfi fyrir opinbera starfsmenn annars vegar og starfsfólk í einkageiranum hins vegar.
Þá er veikindaréttur ríkari hjá hinu opinbera og veikindafjarvistir tvöfalt algengari. Veikindaréttur fer eftir starfsaldri og er í sumum tilfellum margfaldur hjá hinu opinbera samanborið við einkageirann. Sem dæmi á opinber starfsmaður rétt á 95 veikindadögum eftir eitt ár í starfi. Í einkageiranum á starfsmaður í sömu sporum rétt á 24 veikindadögum á ári.
Hægt er að lesa greiningu Viðskiptaráðs í heild sinni hér.