Verslunin Verona opnar í Ármúla 17 í dag en hún er sameining tveggja verslana, Duxiana og Gegnum glerið sem voru áður í Ármúla 10 um árabil.

Í tilkynningu segir að Verona verði heimili tímalausrar hönnunar með Duxiana í fararbroddi sem er heimsþekkt fyrir sænsk DUX-rúm, sængur, kodda og húsgögn. Þá mun Verona einnig bjóða upp á ljós frá Louis Poulsen ásamt öðrum vörum.

„Við erum mjög spennt að fara af stað með Verona í nýju húsnæði hér í Ármúla 17.

Nafnið Verona hefur sterka þýðingu í hugum okkar eigenda enda höfum við öll sérstaka tengingu við þessa fallegu borg,“ segir Haukur Ingi, framkvæmdastjóri Verona.

Verslunin er í eigu Hauks Inga Guðnasonar, Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur, Martinu Vigdísar Nardini og Jóns Helga Erlendssonar. „Duxiana verður okkar helsta vörumerki enda leggjum við áherslu á gæðahönnun og vörur sem eru framleiddar með sjálfbærni og langtímaendingu að leiðarljósi. Okkar markmið er að bjóða upp á hönnunarvörur sem eldast með eigendum sínum,” segir Ragnhildur Steinunn.