Nova birti í dag uppgjör fyrir annan ársfjórðung 2025 gær en samkvæmt greiningu greiningarfyrirtækisins Akkur var það í heild sterkt og í samræmi við væntingar.
Tekjur og EBITDA komu bæði umfram spár en EBIT og hagnaður voru undir væntingum vegna hærri afskrifta og fjármagnsgjalda.
Heildartekjur Nova á fjórðungnum námu 3.428 milljónum, sem er 52 milljónum umfram spá Akkur.
Mikill drifkraftur kom frá FastNet-þjónustu, sem skilaði 11,5% tekjuvexti milli ára á fjórðungnum og 10,7% vexti fyrstu sex mánuði ársins. Þetta er umfram ársáætlun Akkur, sem gerði ráð fyrir 8,5% vexti.
EBITDA nam 1.054 milljónum, eða 58 milljónum umfram spá, og hlutfall EBITDA af tekjum var 30,7%.
Hærri tekjur og lægra kostnaðarverð seldra vara skýra þessa framúrskarandi niðurstöðu. EBITDA síðustu 12 mánaða hefur nú farið yfir 4,3 milljarða og Akkur telur líklegt að ársniðurstaðan verði yfir efri mörkum áætlunar félagsins (4,0–4,4 ma.kr.).
EBIT lækkaði niður í 447 milljónir króna, eða 10 milljónum króna undir spá, og hagnaður eftir skatta nam 149 milljónum króna, sem er 38 milljónum króna undir væntingum.
Hærri afskriftir (608 milljónir króna á móti 539 milljónum króna í spá) og fjármagnsgjöld (255 milljónir króna á móti 223 milljónum króna í spá) voru helstu ástæður þessa fráviks. Akkur telur þó ekki að fjármagnsgjöldin kalli á endurskoðun ársáætlunar að svo stöddu, en afskriftaspá gæti þurft að hækka.
Frjálst sjóðstreymi var 865 milljónir króna á fjórðungnum, sem er veruleg aukning frá sama tíma í fyrra (297 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2023).
Bati í rekstri, lægri veltufjárbinding og minni fjárfestingar skýra þróunina. Lækkun veltufjárbindingar tengist þó að hluta til einskiptis atburðum.
Akkur metur að EBITDA fyrir árið í heild verði umfram áætlanir, á meðan EBIT og hagnaður verða líklega undir væntingum.
Heildaráhrif á verðmat eru talin smávægileg. Miðað við dagslokagengi í dag nemur markaðsvirði Nova 17.000 milljónum króna, heildarvirði rúmlega 28.000 milljónum króna, og hlutföllin EV/EBITDA 6,6, EV/EBIT 13,4 og P/E 15,9.